Orðspor 3

ORÐSPOR 3 10 Líkamsstaða Nú skuluð þið standa á fætur og skoða líkamsstöðuna. Þetta er alls ekki eins flókið eins og fimleikaæfingar og balletstöður en samt skiptir máli hvernig líkamsstaðan er þegar við höldum tölu. Hafa skal í huga fjögur einföld atriði. 1. SNÚA FRAM. Fyrst og fremst skiptir gríðarlega miklu máli að sá sem talar snúi sér að áheyrandanum. Það þykir ekki smart að láta áheyrendur horfa á bakhlutann á sér og svo berst röddin betur til fólks ef höfuðið snýr að því. 2. STANDA Í BÁÐA FÆTUR. Finna góða stöðu fyrir fæturna, án þess að læsa hnjánum. Sumum finnst töff að skjóta mjöðminni út til hægri eða vinstri en við mælskusnillingarnir mælum alls ekki með því. Eins er frábært að telja taktinn með öðrum fæti þegar hlustað er á tónlist eða dilla sér í lendunum en það er ekki snjöll hugmynd þegar við höldum tölu. Allar fótahreyfingar draga athyglina frá því sem við erum að segja. Þess vegna er betra að hreyfa fæturna sem minnst. 3. TALA MEÐ HÖNDUNUM EÐA ÞEGJA MEÐ ÞEIM. Sumar þjóðir eru þekktar fyrir málæði með höndunum. Ég á vinkonu frá Ítalíu, sem gæti örugglega ekki talað ef hún handleggsbrotnaði á báðum höndum. Ef þið notið hendurnar þá skuluð þið gera það til að leggja áherslu á það sem þið segið. Óþarft handapat dregur athyglina frá orðunum og svo er alveg bannað að nota hendurnar til að klóra sér í eyrunum eða bora í nefið. A.m.k. rétt á meðan maður stendur fyrir framan fólk og talar. Mörgum finnst gott að leyfa höndunum að liggja niður með síðum eða leggja þær á púltið, sé það við höndina. 4. NÁ AUGNSAMBANDI VIÐ ÁHEYRENDUR. Best er að tala blaðlaust til að halda athygli þeirra sem hlusta. Næstbest er að vera með lykilorð á blaði og rétt líta á það þegar nauðsynlegt er. Verst er að lesa beint upp af blaði og gleyma því að einhverjir sitji fyrir framan ykkur. Sumum finnst óþægilegt að horfa í augu annarra. Þá er gott ráð að horfa á enni eða á punkt aðeins fyrir ofan höfuð áheyranda. Að halda tölu þýðir það sama og að halda ræðu eða erindi. Hvaðan skyldi orðið tala vera komið í þessu samhengi?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=