105 Illur seiður – Norn er fædd Höfundur: Carol Gardarson „Þetta er uppvaxtarsaga Elísu. Hún er afkomandi íslenskra hjóna sem flytja til Kanada í lok 19. aldar. Móðir hennar villist á sléttunum með hana nýfædda. Til að bjarga lífi hennar gefur hún barninu blóð sitt að drekka. Elísa lifir af en er eftir þetta brennimerkt sem norn. Hún elst upp hjá góðu fólki en hættur leynast víða og saga Elísu er rétt að hefjast. Þetta er ótrúlega flott og spennandi saga og er fyrsta bókin af fjórum. Ég ætla að lesa þær allar.“ Halldór 14 ára. Forboðna borgin Höfundur:William Bell „Árið er 1989. Alex er sautján ára. Hann er í staddur í Kína með pabba sínum sem er fréttamaður. Alex nýtur lífsins og ævintýralegs ferðalags. Dag einn er hann staddur með föður sínum í Peking, á Torgi hins himneska friðar. Þá gera kínverskir námsmenn uppreisn gegn kerfinu. Allt verður kolvitlaust og Axel verður viðskila við föður sinn. Hann verður að treysta á sjálfan sig og fólk sem hann hittir til að komast undan, með upptökur frá atburðunum. Sagan er byggð á sönnum atburðum. Frábær!“ Brynjar Óli 13 ára Munið þið eftir fleiri bókum sem lýsa uppvexti eða lífi einhvers? Safnið saman hugmyndum á bókalista. Skiptið í fjóra hópa. Hver hópur les eina bók. Haldið bókaklúbb. • Hóparnir sem lásu Önnu í Grænuhlíð og Norn er fædd eiga að hittast og bera saman bækur sínar. Margt er líkt með bókunum, bæði sögusvið, tími og persónusköpun. Ræðið! • Hóparnir sem lásu Sölvasögu unglings og Forboðnu borgina hittast og bera saman bækur sínar. Alex og Sölvi halda báðir á vit ævintýra. Hvað er líkt með persónum og hvað er ólíkt. Sögusviðið gæti ekki verið ólíkara eða hvað? Ræðið! Þroskasögur!
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=