Orðspor 1
4. KAFLI 67 Hér er dæmi um bókakynningu, lestu hana yfir og sjáðu hvernig punktarnir eru nýttir: Ég las bókina Kamilla vindmylla og bullorðna fólkið . Höfundur bókarinnar heitir Hilmar Örn Óskarsson og hann hefur skrifað fleiri bækur um Kamillu vindmyllu. Bókin sem ég er að kynna fyrir ykkur er sú fyrsta í röðinni en hinar heita Kamilla vindmylla og leiðin úr Esjunni og Kamilla vindmylla og svikamyllurnar. Höfundur hefur líka skrifað bókina Funi og Alda falda en hún fjallar ekki um Kamillu. Fyrsta bókin fjallar um það að dularfullur geisli ferðast um borgina og í kjölfarið fara furðulegir hlutir að gerast. Fullorðna fólkið byrjar að rugla saman orðum og bullar í stað þess að tala skynsamlega. En Kamilla áttar sig á því að eitthvað alvarlegt er í gangi þegar foreldrar hætta að haga sér eins og foreldrar. Þeir nenna ekkert að hugsa um börnin sín og vilja bara leika sér og borða sælgæti. Kamilla og vinir hennar komast að því að brjálaður vísindamaður stendur á bak við geislann og saman hjálpast þau að við að stöðva hann og frelsa fullorðna fólkið. Mér fannst bókin ótrúlega fyndin, til dæmis hvernig höfundur lék sér að orðum og orðatiltækjum. Eins og þegar hann segist þurfa að taka málin í sínar eigin hendur því það er ekki hægt að taka málið í hendurnar á einhverjum öðrum. Þá þyrfti maður fyrst að taka hendur af einhverjum öðrum og það væri ekki bara dónalegt heldur líka subbulegt. Þetta fannst mér fyndið. Mér þótti bókin líka spennandi þegar við fylgdumst með Kamillu og vinum hennar fara að stöðva vísindamanninn Elías Emil. Svo fannst mér áhugavert að vinur Kamillu gat talað 18 tungumál, ég væri til í að geta það. Ég mæli með bókinni því hún er mjög skemmtileg, maður er fljótur að lesa hana og Kamilla er rosalega skemmtileg persóna. Hafliði 5. ÁK
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=