Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 97 Árstíðir og veður vetur vor sumar haust Árstíðirnar eru fjórar: vor, sumar, haust og vetur og þeim fylgir ólíkt veðurfar. Kúri kann að meta allar árstíðirnar. Á vorin hlýnar í veðri, svell bráðna, plöntur vaxa upp úr moldinni, fuglar búa sér til hreiður og börn komast oftar út í leiki. Síðan kemur sumarið, sólin skín, allt er í blóma og í logni má heyra flugurnar suða. Á haustin breyta svo laufin um lit og þegar vindurinn blæs fjúka laufblöðin af. Það finnst Kúra gaman! En honum finnst veðrið á veturna mest spennandi því það breytist svo ört. Það getur meira að segja skollið á óveður og stundum kyngir niður snjó. Þá geta krakkarnir búið til snjókarla eða snjóhús og kastað snjóboltum. Allir verða þó að gæta sín í frosti því þá getur myndast hálka á gangstéttunum. Kúri er hins vegar vel búinn því hann er með flugbeittar klær. • Hver er uppáhaldsárstíðin ykkar? Af hverju? • Af hverju búa fuglar sér til hreiður á vorin? Hugmyndir að umræðuefni • Talið um árstíðir, heiti þeirra og einkenni. Talið um breytingar sem verða í náttúrunni og samfélaginu eftir því sem árstíðirnar líða. • Hvaða veður einkennir hverja árstíð? Hvernig er veðrið í dag? Hvernig veður finnst þér skemmtilegast? • Ræðið við börnin um hvernig þeim líður þegar sólin skín, þegar rignir, þegar er vindur eða þegar snjóar. • Spyrjið börnin hvað þau sjá margar árstíðir á myndinni. Hvernig sjáum við árstíðirnar breytast þar? Hvers vegna breytist liturinn á grasinu? Hvert fer sólin á nóttunni? En yfir veturinn? • Hvaðan kemur vindurinn? Af hverju er ekki snjór á sumrin? • Hafa börnin búið til snjókarl?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=