Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 91 Erlend dýr Á bókasafninu í hverfinu er bók með myndum af erlendum dýrum. Það eru dýr sem ekki er að finna úti í náttúrunni á Íslandi. Kúra finnst gaman að skoða myndirnar. Dýrin eru rosalega flott en Kúri er feginn að eiga ekki á hættu að rekast á krókódíl, flóðhest eða fíl á næsta götuhorni. Ísbjörninn gæti líka gleypt hann í einum bita! Erlendu dýrin eru þó alls ekki öll hættuleg og Kúri væri alveg til í að hafa íkorna eða frosk í garðinum heima hjá sér. • Hvað merkir að vera feginn? Hvenær hafið þið verið fegin? • Hvaða dýrum líður best í köldu loftslagi? En heitu? Hugmyndir að umræðum • Nefnið dýrin á litlu myndunum og parið við myndirnar í bókinni. Dýrin á myndinni eru flest frumskógardýr. Talið um lit, stærð, hvort þau eru grimm eða meinlaus, loðin eða ekki loðin. Sum börn hafa hugsanlega séð þessi dýr í dýragarði eða í fræðsluefni. Tengið umræðuna við þeirra reynslu. • Hvað er t.d. flóðhesturinn að gera? En íkorninn? En froskurinn? • Hvernig halda börnin að heyrist í ljóninu, górillunni, slöngunni, páfagauknum? • Hvað með flóðhestinn, nashyrninginn, fílinn? Nýtið vefinn til að afla upplýsinga. Hvernig hreyfir strúturinn sig, froskurinn, mörgæsin, apinn, eðlan? • Biðjið börnin að sýna hvernig dýrin hreyfa sig. • Umræða getur verið um hvað dýrin geta gert til að verja sig? Hvernig verja þau sig? Ráðast öll dýr hvert að öðru eða er hægt að gera eitthvað annað, t.d. beita kænsku? Skýrið út hvað það er að vera kænn (að vera snjall að finna góð ráð, klókindi). Yfirfærið samskiptaleiðir dýranna yfir á samskipti barnanna. Ráðast börnin hvert á annað þegar þeim finnst þeim ógnað eða nota þau snjallar leiðir í samskiptum?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=