Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 85 Íþróttir Kötturinn Kúri hefur tekið eftir því hvað margt fólk hefur gaman af að vera í alls konar íþróttum. Sumir virðast vera með mjög mikið keppnisskap, aðrir vilja rækta líkamann með því að hreyfa sig og enn aðrir sækja í útiveruna sem fylgir vissum íþróttagreinum. Kúri skilur það vel. Sumir vilja líka þjálfa hugann. Flestir virðast finna eitthvað við sitt hæfi því það eru til alls konar íþróttir: Boltaíþróttir, fimleikar, bardagaíþróttir, skák, golf, hestaíþróttir, dans, frjálsar íþróttir, vetraríþróttir, sund og fleira skemmtilegt sprikl. Kúri hefur samt mestan áhuga á badminton enda er hann sleipur í að fiska flugur. • Hvaða íþróttir finnst ykkur skemmtilegar? • Hvaða íþróttir er hægt að stunda úti? En inni? Hugmyndir að umræðuefni • Ræðið við börnin um það sem sést á opnunni. Spyrjið t.d. hvað er íþrótt? • Hvaða íþróttagreinar þekkja börnin? Hvaða íþrótt vantar á myndina? • Spyrjið hvort börin hafi farið í boltaleik, á hestbak, dansað, hjólað? Ræðið um hvað þau hafa prófað. • Hvaða íþrótt er skemmtilegust og af hverju? Hvað langar börnin til að prófa? • Finnst öllum skemmtilegt í íþróttum? • Þarf alltaf að keppa eða bara hafa gaman af? • Þarf maður að vera bestur í íþróttum eða er í lagi að hafa gaman saman? (Ræða mikilvægi félagsskapar og samveru.) • Þekkja börnin eitthvert íþróttafólk? Í hvaða íþróttum er það? Hvað gerir það? • Þarf styrk, kraft, liðleika og samhæfni í íþróttum? • Hugaríþróttir, hvað er það? (Skák, bridds, krossgátur, sudoku, að leggja kapal og spila alls konar leiki í öppum.)

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=