Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 81 Almenningsgarður Kúri er hrifinn af almenningsgarðinum í bænum. Garðurinn er vinsæll hjá bæjarbúum enda ríkir þar yfirleitt kyrrð og ró. Gestir njóta þess að vera innan um ilmandi gróðurinn, rölta um gangstígana, vaða í tjörninni, gefa öndunum eða setjast á bekk til spjalla saman um lífið og tilveruna. Kúri er hins vegar kominn í garðinn til að fara í æsispennandi könnunarleiðangur. Honum finnst mjög gaman að læðast á milli runnanna eins og tígrisdýr í skógi og klifra í trjánum. Starfsfólk almenningsgarðsins sér um að rækta garðinn með því að gróðursetja plöntur eða vökva blómabeðin og unglingar í sumarvinnu hjálpa til. Kúri kann líka að meta hvað fuglalífið er fjörugt en lætur það ekki trufla sig þegar svanirnir blaka vængjunum með fjaðraþyt. Hann hefur nefnilega komið auga á nokkra andarunga sem leika sér að því að láta sig hverfa ofan í vatnið og skjótast svo upp úr kafi annars staðar. Kúri er alveg hissa en hættir sér ekki nálægt vatninu. Honum finnst langöruggast að halda sig uppi á brúnni. • Hvað finnst ykkur skemmtilegt að gera í almenningsgörðum? • Hvað merkir að blaka vængjunum? En hvað er fjaðraþytur? Hugmyndir að umræðuefni • Hvað er almenningsgarður? Spyrja börnin um heitið. Hvað felur orðið í sér? Þekkja þau almenningsgarða í sínu umhverfi? Hvað getum við gert í almenningsgarði? • Hvernig eigum við að haga okkur í svoleiðis garði? • Umræða um virðingu fyrir umhverfinu og sameign okkar, t.d. að slíta ekki upp blóm og henda ekki rusli hvar sem er. Má klifra alls staðar? Ef ekki, af hverju? • Á opnunni er kona að gróðursetja. Ræða við börnin um hvað þarf til og hvernig er best að gróðursetja blóm/tré. Það þarf mold, vatn og vökva reglulega. Ræturnar þurfa að fara niður í moldina. Hvaða áhöld þarf við gróðursetningu?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=