Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 8 Sögugerð Í sögugerð blómstrar frásagnargleðin og ímyndunaraflið fær að njóta sín. Máltjáning er mikilvægur þáttur í bernskulæsi. Þau sem geta sagt skýrt frá og skilja framvindu í sögu eru líklegri til að hafa góðan lesskilning (Freyja Birgisdóttir, 2011). Gott er að nota myndir til að örva til frásagnar þau sem eiga erfitt með að segja frá, átta sig illa á byggingu sögu og skynja ekki atburðarás. Hvetjið börnin til að segja frá því sem þau sjá á myndunum. Það er gott fyrir börn að læra að skipuleggja frásögn með sögupersónum, sögusviði, upphafsatburði, atburðarás og sögulokum. Börn ná ekki fullum tökum á sögugerð fyrr en þau eru um níu ára gömul (Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2004) en þau þurfa að æfa sig á leikskólaaldri. Skemmtilegt er að börnin rifji upp eftirminnilega atburði sem tengjast myndum bókarinnar. Það er líka mikilvægt fyrir þann fullorðna að vera góð fyrirmynd og segja börnunum sögur úr eigin lífi út frá myndunum. Mikilvægt er að fá foreldra í samstarf og vinna með sömu myndir heima fyrir þau börn sem þurfa auka stuðning við að segja frá. Eitt verkefni gæti verið að búa til sögur saman. Þá eru sagðar sögur eftir efnisatriðum í bókinni, t.d. búðarferð eða útilegu, og barnið hvatt til þess sama. Sögur barnsins eru skráðar í litla bók sem barnið myndskreytir. Barnið getur svo „lesið“ bókina fyrir félaga sína. Samvinnuverkefni milli leikskóla- og grunnskólabarna Börnin í leikskólanum og börnin í grunnskólanum skoða bókina og velja persónur. Leikskólabörnin teikna persónur úr bókinni en grunnskólabörnin teikna umhverfi á stóran renning. Svo hjálpast þau öll að við að klippa persónurnar út og setja þær á renninginn þar sem þeim finnst viðeigandi. Stór bók Börnin semja sameiginlega sögu. Til dæmis geta 8 til 10 börn (eða einn hópur) unnið saman. Fullorðinn skrifar textann eftir börnunum og síðan er textanum skipt á 4 til 5 blaðsíður. Hver blaðsíða er hálft karton. Tvö og tvö börn vinna saman að einni blaðsíðu. Sögurenningur Settur er renningur yfir heilan vegg. Börnin búa til sögu út frá ákveðinni opnu í bókinni og sögunni er raðað á renninginn eftir atburðarás frá upphafi til enda. Börnin geta ýmist teiknað eða klippt út myndir sem tilheyra bókinni. Kennarinn skráir. Vettvangsferðabækur/Fræðslubækur Farið í vettvangsferðir í tengslum við opnur bókarinnar. Takið með ykkur blöð og blýanta og fáið börnin til að teikna það sem vekur áhuga þeirra í ferðinni. Haldið áfram með verkefnið þegar heim er komið. Ljósritið myndir barnanna og fáið þau til að segja frá myndinni sinni og ferðinni og skráið texta til að hafa með myndinni þeirra. Rifjið saman upp leiðina og hvað var áhugavert. Finnið jafnvel viðbótarupplýsingar ef þarf. Setjið svo allt saman í eina bók.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=