| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 73 Ferðalag Á sumrin fer fólk gjarnan í ferðalag um landið og stundum fær Kúri að fljóta með. Sumir fara í sumarbústað en aðrir vilja frekar fara í útilegu. Margir ferðast með tjaldvagn, fellihýsi eða hjólhýsi aftan í bílnum sínum. Fólkið reynir svo að koma sér vel fyrir á tjaldstæðinu en það gengur ekki alltaf vel. Það getur til dæmis verið flókið að tjalda ef maður kann ekki á græjurnar og vandasamt að grilla matinn passlega lengi. En það skiptir ekki öllu máli því útiveran kemur fólki í gott skap og flestir fá mjög mikla matarlyst – líka kettir. • Hvað er Kúri eiginlega að gera? • Hvað mynduð þið vilja gera í útilegu? Hugmyndir að umræðuefni • Umræða um útilegu/ferðalag. Mörg börn hafa reynslu af því að fara í útilegu eða í bústað en ekki öll. Gefið öllum í hópnum tækifæri til að tjá sig um sína reynslu. Þau börn sem ekki hafa farið í útilegu eða bústað vilja kannski spyrja og læra um þessa menningu. • Hvað merkir að fara í útilegu eða bústað? Hvert hafa börnin farið? Hvert langar þau að fara? Hvert ætla þau að fara? Börnin fá tækifæri til að tala um reynslu sína og langanir út frá því sem þau hafa gert (fortíð), það sem þau eru að upplifa, t.d. ef ferðalag kemur fram í leiknum (nútíð) og það sem þau ætla að gera (framtíð). • Hvernig ferðast fólk á sumrin? En veturna? Hvers vegna er það ekki eins, hvers vegna förum við frekar í útilegu á sumrin? • Umræða um orð sem tengjast ferðalögum, t.d. tjald, svefnpoki, hjólhýsi, tjaldvagnar, fellihýsi, kælibox, brekkusöngur, varðeldur, sykurpúðar, nesti o.m.fl. • Fyrir eldri börnin má kynna orðin viðlegubúnaður, hvílupoki, varðeldur, skrínukostur.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=