Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 60 • Hvaða störf þarf að vinna í sveitinni? Fara með hey til dýranna, sækja eggin frá hænunum, gefa lambi mjólk úr pela ... Af hverju fær þetta lamb mjólk úr pela? Það er heimalningur (munaðarlaust lamb). • Hvaða dýr eru með skott? Ert þú með skott? • Hvaða dýr eru með hala? Hvaða dýr er með tagl? • Umhverfismennt, hringrásin í sveitinni. Ræðið við börnin um hvað er gert í sveitinni á vorin, yfir sumarið, á haustin og yfir veturinn. • Skapið umræðu um orð og merkingu þeirra, hvað þýða orðin sem þið talið um? Ræðið um samsett orð, t.d. úr hvaða orðum er „hundblautur“ sett saman? Hvað verður eftir ef við tökum fyrri eða seinni hlutann í burtu? Dæmi: Að vera hundblautur, hundeltur, kattliðugur, kiðfættur, svínheppin, morgunhani, nautsterk, að svínvirka, að vera við hestaheilsu. • Hvað merkja málshættir og orðatiltæki sem tengjast dýrunum? Hvaðan ætli þau séu komin? Hvað merkja orðatiltækin „ljúfur sem lamb“, „setja sig á háan hest“, „margt er skrýtið í kýrhausnum,“ „stara á eitthvað eins og naut á nývirki?“ • Að búa í sveit: Hver er munurinn á að búa í sveit eða þéttbýli? Leikir og sköpun • Hjálpið börnunum að búa til hugarkort til dæmis með könnunaraðferðinni: ○ Mjólkurafurðir: Hver gefur okkur mjólkina? Hvað er hægt að vinna úr henni? Heiti á kúm, líkamshlutar þeirra. ○ Móðurmjólk, fyrsta fæða ungbarna. Hvaða dýr næra afkvæmi sín á mjólk? • Hópverkefni þar sem börnin leika dýr eða skapa þau úr fjölbreyttum efniviði. • Hljóðkerfisvitund: Klappa atkvæði. Í hverri umferð velur eitthvert barnanna dýr og við klöppum atkvæðafjöldann í nafninu. Síðan fær barnið að slá atkvæðafjöldann á þríhorn líka. • Sögugerð: Búið til sögu saman um sveitina og dýrin. Þekkjum við sögur um dýrin? • Dýraleikur: Kennarinn semur einfaldar spurningar um dýr og lætur þær í poka. Til dæmis: Hvað heitir afkvæmi svína/katta/hunda o.s.frv. Hvernig heyrist í þeim? Leiktu kött, hænu o.s.frv. • Börnin sitja í hring á gólfi og láta púða/bolta ganga á milli sín á meðan tónlist er leikin. Þegar tónlistin er stöðvuð fær það barn sem er með púðann/boltann að draga miða úr pokanum og svara spurningu/gera verkefni. • Hlustun – Kennari dreifir myndum af dýrum um gólfið eða hengir á veggi. Spiluð eru tóndæmi og börnin hlusta og færa sig á milli eftir því hvaða hljóð þau heyra. Hægt er að finna dýrahljóð á YouTube – íslensk útgáfa (hundur, köttur, mús, kýr, sauðkind (kind), asni, svín, önd, hæna, hani, ugla, páfagaukur, froskur, fíll, ljón, tígrisdýr, snákur, býfluga). • Búa til spjöld með myndum af dýrunum. Börnin draga spjöld og lýsa dýrinu fyrir hinum börnunum. Einnig hægt að leika dýrin eða hljóð þeirra.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=