Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 6 Leikið með orð Hvetjið börnin til að finna hluti sem þau sjá á myndum bókarinnar í eigin umhverfi. Þau velja hluti sem þeim finnst áhugaverðir og eiga svo að lýsa þeim með orðum. Þannig öðlast þau dýpri skilning á merkingu orðanna. Hægt er að setja hluti í poka sem tengjast ákveðnum opnum í bókinni. Börnin skiptast á að draga hluti úr pokanum og lýsa hlutnum fyrir hópnum. Barnið segir frá því sem það veit nú þegar um hlutinn og hópurinn hjálpast að við að bæta við frekari smáatriðum. Í samtali um hlutinn er hægt að tala um hvaða flokki hann tilheyrir (farartæki, eldhúsáhöld, föt …), hvernig hann lítur út, hvort hann gefi frá sér hljóð, hvernig er hann viðkomu (harður, mjúkur …), hlutverk hans, litur o.s.frv. Orð í mismunandi samhengi Börn læra stöðugt ný orð og til að auðvelda þeim að auðga orðaforðann þurfa fullorðnir að vera þeim góð fyrirmynd. Dæmi: • „Sjáðu boltann. Hann er sko aldeilis fínn þessi rauði bolti. Þú átt næstum alveg eins bolta. Eigum við að setja litla rauða boltann ofan í kassann?“ • „Heldur þú að Kúra sé heitt? Er þér heitt? Já, ég veit, það er sjóðheitt hér inni!“ • „Er Kúri glaður? En þú? Ég er líka glöð.“ Atburðir í nútíð, þátíð og framtíð Ung börn lifa í núinu. Þegar þau benda á hlut eða athöfn eru þau að óska eftir upplýsingum. Þau vilja vita hvað hluturinn heitir og gerir eða hvernig athöfnin virkar. Smátt og smátt þarf að byggja ofan á grunninn, kenna þeim ný orð og tala um það sem gerst hefur áður og það sem á eftir að gerast. Þannig lærir barnið að skynja tímann og lagður er grunnur að skipulagningu frásagnar. Tengið myndirnar í bókinni við reynsluheim barnsins svo sem útiveru, gönguferðir, leikskóladaginn og afmæli. Talið um það sem þau eru að gera, gerðu og ætla að gera. Kynning á nýjum orðum og hugtökum Mikilvægt er að öðlast tilfinningu fyrir málskilningi barnsins. Gott er að benda á myndirnar og útskýra orð eða nota samheiti („Veistu að drengur þýðir það sama og strákur?“). Ef barnið ber orð vitlaust fram er best að endurtaka orðið rétt án þess að leiðrétta barnið. Til að kenna orðaforða er góð aðferð að endurtaka og bæta við orðum eða upplýsingum. Með því er barninu gefin fyrirmynd um hvernig á að nota orðin. Barnið finnur að hlustað er á það og það er hvatt til að tjá sig.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=