Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 59 Í sveitinni Kúri er heppinn því hann fær að fara í dagsferð með nágrönnum sínum upp í sveit. Á sveitabænum sem þau heimsækja eru mörg dýr. Sum dýrin hafa eignast afkvæmi og því er í mörgu að snúast. Öll dýrin þurfa að hafa nóg að éta. Bændurnir á bænum hafa í nógu að snúast. Það þarf að sækja hey fyrir kindurnar í fjárhúsinu og gefa heimalningnum mjólk að drekka úr pela. Hundur nagar bein, nautið baular í fjósinu, folald stekkur um túnið, kiðlingur prílar upp á heybagga, svínin hrína, haninn galar, krummi krunkar, amman á bænum sækir egg, hænurnar kroppa korn og kettlingur eltir skottið á Kúra. Kúri er alsæll, eins og barnið sem buslar í drullupollinum og hann gæti vel hugsað sér að búa í sveit. • Hvað er heimalningur? • Hvaða dýr hafið þið séð í sveitinni? Hugmyndir að umræðum • Skoðið opnuna og talið um það sem gerist í sveitinni. Skoðið líka allar litlu myndirnar í kring og verið viss um að börnin geti tengt þær við myndir á opnunni. Hvað sjá börnin á opnunni? • Ræðið um hvað íslensku húsdýrin heita (hestur, hryssa, folald, kýr, naut, kálfur, hrútur, kind, lamb, hæna, hani, ungi, geithafur, geit, kiðlingur, gylta, svín, grís, tík, hundur, hvolpur, læða, fress, kettlingur) og tengið við dýrin á myndinni. • Talið um afkvæmi húsdýranna og hvað þau heita og hvað kvendýr og karldýr eru kölluð. Hvernig heyrist í dýrunum? • Hvað gefa dýrin okkur og hvert fara afurðirnar frá þeim (mjólk, egg, ull, kjöt)? • Hvað heita bústaðir dýranna? Hesthús, fjós, fjárhús, hlaða, stía. Margvíslegar upplýsingar má finna á vefnum Íslensku húsdýrin á mms.is

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=