Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 5 Kötturinn Kúri Kötturinn Kúri, eða ummerki eftir hann, birtist á öllum opnumyndum bókarinnar. Börnin geta skemmt sér við að leita að honum. Kúri er heimilisköttur, gulbröndóttur á litinn, með græna ól um hálsinn með silfurlitaðri bjöllu. Hann er ævintýragjarn og forvitinn og lendir í allskonar ævintýrum. Það er tilvalið að nota ævintýri Kúra sem kveikju að samtali á hverri opnu. Mikilvægt er að tala um fortíð, nútíð og framtíð: Hvað er Kúri að gera? Af hverju? Hvernig líður honum? Hvað heldur þú að hafi gerst áður? Hvað heldur þú að gerist næst? Einnig má nota köttinn Kúra sem kveikju að skapandi vinnu: • Könnunaraðferð (sjá lýsingu hér aftar). • Hugarkort um ketti – Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu MMS þar sem eru upplýsingar um húsdýr. • Börnin geta búið til kisur úr ýmiss konar efniviði, ýmist sem samvinnu- eða einstaklingsverkefni. Orðaforði Orðaforði er sá fjöldi orða sem hver og einn skilur og getur notað við að hlusta, tala, lesa og skrifa (Snow, Burns & Griffin, 1998). Öflun orðaforða fer fram með beinum hætti í kennslu og markvissri leit að merkingu en einnig með óbeinum hætti við daglega reynslu, hlustun, samræður og lestur. Orðaforði er ein helsta forsenda lesskilnings. Börn þurfa að þróa með sér meðvitund um orð sem felur í sér áhuga, forvitni og löngun til að skilja merkingu þeirra (Tankersley, 2003). Nauðsynlegt er að styðja vel við máltöku barna og leggja mikla áherslu á orðaforða frá upphafi. Lesa má nánar um orðaforða á Læsisvefnum og einnig fá finna þar fróðleik um málþroska. Hægt er að vinna með orðaforða í leik og daglegu starfi á fjölbreyttan hátt með stuðningi bókarinnar. Þá er best að nota orðin í mismunandi samhengi og ræða atburði í nútíð, þátíð og framtíð. Mikilvægt er að vera börnunum skýr málfyrirmynd og einnig að öðlast tilfinningu fyrir málskilningi barnsins. Æskilegt er að nota setningar sem barnið skilur og bæta við nýjum orðum og hugtökum. Þetta er hægt að gera með því að benda á myndirnar, segja orðin og nefna sem dæmi samheiti, andheiti, yfirhugtak, stærð, áferð, lit, fjölda o.fl. Gæta þarf að því að tala ekki of hratt, spyrja opinna spurninga og gefa barninu tíma og tækifæri til að svara: • Hvað sérðu á myndinni? • Hvað er að gerast? • Hver/hverjir eru þarna? • Hvar gerist sagan? • Hvernig er veðrið? • Hvað er fólkið á myndinni að gera? • Hvað ætli fólkið sé að hugsa? • Hvernig líður þeim? • Hvað heldur þú að hafi gerst á undan? • Hvað heldur þú að gerist næst? • Hvað finnst þér að ætti að gerast?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=