Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 49 Leikir og sköpun • Blandið saman litum og ræðið hvað gerist. Litur vikunnar – samvinna heimilis og skóla. Upplýsið foreldra um lit vikunnar, hengið t.d. upp litað spjald í hverri viku. • Börnin skapa úr mismunandi formum. T.d. úr einingakubbum, pappír, rörum, töppum. • Litaleikur: Kennarinn býr til spjöld í þeim litum sem hann vill vinna með og sér til þess að í umhverfi barnanna séu hlutir í þessum litum, geta t.d. verið leikföng, litir, fatnaður, pappír eða annað. Kennarinn setur eitt spjald á borðið í einu og spyr börnin hvaða litur sé á spjaldinu og biður þau svo í kjölfarið að leita að hlutum í þessum lit í stofunni. Börnin hlaupa um og finna litina og koma með hlutina (ef hægt er) á borðið. • Klemmuleikur: Notaðar eru klemmur t.d. með myndum af formum/eða litum. Börnin fá úthlutað formi/lit og leita að klemmu með sama formi/lit. Hægt er að fara í leikinn bæði úti og inni. • Útikennsla: Nýtið útikennslu til að vinna með formin, talningu og litina. Fara mætti í gönguferð um hverfið og finna mismunandi form (hús, glugga, bíla, tré o.fl.). Þegar heim er komið eftir gönguna geta börnin búið til það form eða þann hlut sem heillaði mest. • Þrautaleikur: Kennarinn gefur fyrirmæli, t.d. „allir í bláum buxum eiga að standa á öðrum fæti.“ „Allir í bleikum sokkum eiga að snerta á sér nefið.“ • Flokka kubba og annað eftir lögun og litum: Safnið saman í kassa hlutum sem eru mismunandi í laginu. Til dæmis pappaumbúðir undan morgunkorni, tréöskjur undan ostum, sívalningslaga sælgætisbox, þríhyrningslaga súkkulaðiumbúðir, keilulaga afmælishattar. Skoðið og kannið hvaða formi þessir hlutir tilheyra og flokkið þá. Börnin gætu einnig komið með einn hlut að heiman sem tilheyrir einhverju formi. • Þreifa, lýsa, giska: Felið formin í poka og fullorðinn eða barn setur hendurnar ofan í pokann og lýsir hlutnum, t.d. eitthvað með oddhvössu horni og hvað þau eru mörg. Giskað er á rétt form eða hlutinn sjálfan áður en hann er dreginn upp úr pokanum. • Búið til ferhyrninga, þríhyrninga eða önnur form úr sundurklipptum formum, byrjið einfalt og þyngið síðan verkefnið smátt og smátt. • Búið til klippimynd úr formum t.d. blóm, hús, manneskju o.fl. • Klippið út formin og búið til óróa eða lengju. • Stimpla formin: Búið til stimpla með formum t.d. með því að skera út kartöflur sem börnin geta síðan dýpt í málningu og stimplað. • Börnin móta mismunandi form í sandi, drullumalla eða leira. • Skoða líka mynstur í fötunum sínum. • Börnin teikna formin með krít á gangstéttina eða móta stór form með límbandi á gólfið. Þau ganga síðan fyrir utan formin og skoða en fara ekki inn fyrir línurnar. Síðan eiga öll sem eru t.d. í hvítum sokkum að fara inn í eitthvert formið, t.d. þríhyrninginn. Börnin lýsa því formi sem þau eru í, t.d. „form með þremur hornum.“ • Börnin vinna tvö og tvö saman, annað er vélmenni en hitt teiknar form á bakið á vélmenninu. Vélmennið sem gengur af stað eins og vélmenni og býr til formið sem var teiknað. Þau sem horfa á eiga að giska á hvaða form vélmennið bjó til.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=