Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 4 Inngangur Orð eru ævintýri er íslensk myndaorðabók fyrir börn. Stuðst var við bókina Tíðni orða í tali barna sem er listi orða frá börnum á aldrinum 2;6 til 7;11 ára (Jóhanna T. Einarsdóttir o.fl. 2019). Á grunni orðalistans voru sköpuð sögusvið og áhersla lögð á að myndirnar væru einkennandi fyrir íslenskt samfélag. Myndaritstjórinn Kristín Ragna Gunnarsdóttir gerði myndlýsingar fyrir hverja opnu sem myndhöfundar nýttu við listsköpun sína. Hugmyndabanki fyrir leikskóla með bókinni Orð eru ævintýri er samvinnuverkefni Miðju máls og læsis og leikskólanna Laugasólar og Blásala. Markmið bókarinnar og hugmyndabankans er að gefa fjölskyldum og kennurum efni og hugmyndir til að ræða um og vinna með orð sem koma fyrir í daglegu lífi með það að markmiði að efla orðaforða barna. Rannsóknir sýna að árangursríkasta aðferðin til að vekja áhuga barna á að lesa sjálf er að lesa upphátt fyrir þau. Þegar lesið er fyrir börn er verið að leggja grunn að lestrarnámi þeirra og þegar börn hlusta á skemmtilegar sögur vaknar hjá þeim löngun til að lesa á eigin spýtur. Orðaforði er mikilvægur fyrir málþroska og læsi. Barn sem hefur mikinn orðaforða hefur meiri færni til djúpstæðrar hugsunar og á auðveldara með tjáskipti en barn með lítinn orðaforða. Barn með góðan orðaforða á auðveldara með að bæta við orðaforða sinn í gæða lestrarstundum. Því þarf að leggja áherslu á að efla orðaforða barna með lestri og samræðum frá fyrstu tíð. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að lestur og samræður um efnið í litlum hópum sé aðferð sem eflir orðaforða barna hvað mest. Þess konar samræðulestur felst í því að nefna persónur, hluti og athafnir á myndunum og tengja við reynsluheim barna (Kassow, 2006). Þegar börn eldast verða samræðurnar flóknari og byggjast á krefjandi spurningum og heimspekilegum vangaveltum. Hugmyndabankanum er ætlað að hvetja leikskólakennara, starfsfólk og foreldra til að vinna með bókina og tungumálið á lifandi og skapandi hátt. Í honum er að finna hugmyndir að verkefnum í tengslum við bókina sem eru til þess fallin að auka orðaforða og örva málnotkun barna. Verkefnin eru fjölbreytt og þau þarf ekki að vinna í ákveðinni röð. Fyrst er almennum verkefnum lýst en síðan koma hugmyndir sem fylgja hverri opnu bókarinnar. Með verkefnunum í hugmyndabankanum er ætlunin að vekja áhuga og virkja ímyndunarafl bæði barna og kennara. Með hverri opnu fylgir örsaga til upplestrar sem getur verið kveikja að umræðum. Sögurnar eru eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=