| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 33 • Hvers vegna er mikilvægt að skilja tilfinningar annarra? Komið með dæmi, t.d. ef einhver segir eitthvað ljótt við þig, hvernig líður þér þá? Hvernig líður þér ef þú segir eitthvað ljótt við einhvern? Hvað var sá að hugsa sem varð til þess að hann sagði eitthvað ljótt við þig? • Hvenær varst þú síðast hrædd, glöð, sorgmædd, reið o.s.frv.? • Hvenær notum við orðið vondur, ekki tengja persónum, frekar hlutum og einhverju áþreifanlegu. Líkamlega vont, andlega vont. Fáið börnin í umræðu um það. Leikir og sköpun • Tilfinningaklukka: Börnin geta gert sína klukku sem þau nota þegar erfitt er að koma orðum að tilfinningum. Það er t.d. hægt að nota fjórar grunntilfinningar og börnin bæta svo sjálf við þeim tilfinningum sem þeim kemur í hug. Biðjið börnin að nefna tilfinninguna. Ræðið um hvað börnin hugsa þegar þau upplifa tilfinninguna sem þau tjá. Börnin teikna um vináttu. Setjið hugsanablöðru á myndirnar og fáið börnin til að segja „Hvernig líður vini þínum?“ • Spilið tónlist t.d. Karnival dýranna. Túlkum ákveðna tilfinningu við ákveðin stef. • Börnin fá plöstuð spjöld með tilfinningum og eiga að teikna mynd af þeirri tilfinningu sem er á spjaldinu og velta jafnframt fyrir sér af hverju tilfinningin er til staðar. Hvað gæti hafa komið fyrir? • Að leira og lita eigin tilfinningar: Ræðið um tilfinningar við börnin, afhendið þeim leir og hvetjið þau til að velja sér tilfinningu til að leira. Þau mega leira hvað sem er til að túlka tilfinninguna. Bakið leirinn (eða látið hann þorna) og leyfið svo börnunum að mála verkið sitt. Reynið að vekja þau til umhugsunar um hvers vegna þau velja þá liti sem þau velja. ○ Hvaða litur dettur þér í hug þegar þú hugsar um ákveðna tilfinningu? ○ Af hverju hefur ákveðin tilfinning vissan lit í þínum huga? Tónlist • Tilfinningablús. Hugmyndir um að hvernig hægt er að vinna með lagið er á heimasíðunni Börn og tónlist. • Ef þú ert súr, vertu þá sætur eftir Ólaf Hauk Símonarson með Olgu Guðrúnu Árnadóttur. • Við hlæjum, grátum ... öll í einu (Úr laginu Við klöppum öll í einu. Þegar kemur að athöfnum sem tengjast tilfinningum, t.d. grátum, hlæjum, þá er lögð áhersla á þær með því að syngja hátt eða lágt). Ítarefni • Myndband: Birte Harksen notar segulkubba til að tala um tilfinningar. • Setjið í leitarvél á vef Mere Robust – efni til að þjálfa tilfinningagreind. • Bókaútgáfan Oran.is hefur sérhæft sig í að gefa út bækur um tilfinningar barna á leikskólaaldri. • Orðasjóður – tilfinningar og líðan.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=