Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 12 Könnunaraðferðin Það er tilvalið að nota Orð eru ævintýri sem kveikju fyrir könnunaraðferðina. Könnunar- aðferðin er ákveðin námsaðferð þar sem kennarinn leiðbeinir börnunum í gegnum rannsóknarvinnu sína. Það viðfangsefni sem er tekið fyrir byggir á reynslu barnanna og áhugi og forvitni þeirra ræður ferðinni. Þannig veit enginn hvert rannsóknarvinnan leiðir hópinn. Könnunaraðferðin er með upphaf, miðju og endi. Ferlinu er skipt upp í þrjú stig: 1. stig – að hefjast handa. Lykilatriðið hér er að velja viðfangsefni sem byggir á sameiginlegri reynslu barnanna, hafa hugarflæði og setja það upp í þekkingarvef. Út frá þessu koma svo vangaveltur frá börnunum um það hvað þau vilja vita meira. 2. stig – að rannsaka, skoða og kanna. Hér er í raun aðalvinnan og rannsóknin. Farið er í vettvangsferðir til að fá tækifæri til að upplifa viðfangsefnið í raunverulegum aðstæðum. Síðan vinna börnin úr ferðinni, leita sér jafnvel nánari upplýsinga í bókum, á vef eða með því að tala við einhvern sem er fróður um málið. Bætt er í þekkingarvefinn jafnóðum og þekking bætist við. Börnin rannsaka, teikna athugasemdir, búa til fyrirmyndir (líkön), gera athuganir og skrá niðurstöður. Þau kanna, spá, fjalla um og leika nýju upplifun sína. 3. stig – að meta, túlka og miðla. Nú skoðar kennarinn með börnunum hvað þau hafa lært í þessari rannsóknarvinnu. Síðan ákveða börnin hvort þau vilji deila þessari reynslu sinni með öðrum, til dæmis með sýningu fyrir foreldrana. Mikilvægt er að börnin fái tækifæri til að skýra vel frá því sem þau hafa lært af ferlinu svo það verði merkingarbært fyrir þeim. Þannig eiga þau auðveldara með að sameina og samþætta upplýsingar sem þau fengu í gegnum mismunandi reynslu af viðfangsefninu. Á þessu stigi er ákvarðanataka barnanna jafn mikilvæg og á hinum tveimur stigunum. Þau þurfa að taka ákvörðun um það hvað þau lærðu í raun, hvernig þau lærðu það og hverju þau vilja deila með öðrum (Helm and Katz, 2001). Áherslan er alltaf á ferlið sjálft en ekki afraksturinn. Ítarefni Á vef Akrasels er umfjöllun um könnunaraðferðina. Hægt er að finna erlent efni tengt aðferðinni með því að setja leitarorðið Project approach í leitarvél á vef. Umfjöllun um hugarkort.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=