Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir leikskóla

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir leikskóla | 2922 | MMS 2024 | 10 Hljóðkerfisvitund Hljóðkerfisvitund er tilfinning og næmi einstaklings fyrir uppbyggingu tungumálsins. Það er tilvalið að nota bókina til að vinna með hljóðkerfisvitund á fjölbreyttan hátt í daglegu leikskólastarfi. Rím Hvetjið börnin til að ríma við orð þegar bókin er skoðuð. Leggið áherslu á að ríma við orð sem börnin hafa áhuga á. Það má byrja á bullrími en smám saman að gera kröfur á merkingarbær orð. Veljið orð af vefnum til að búa til myndrænt rím sem má nota á fjölbreyttan hátt í daglegu starfi. Búið til rímspil/ bingó með myndum úr bókinni. Samstöfur Klappið atkvæði þeirra orða sem þið eruð að leggja áherslu á. Það má líka t.d. hoppa, smella, nota trommur eða önnur hljóðfæri. Samsett orð Vekið athygli á samsettum orðum í bókinni. Leikið ykkur með að taka samsett orð í sundur og setja saman, t.d. ísskápur, sundlaug, fjallganga. Spjallið um úr hvaða orðum samsettu orðin eru mynduð og veltið fyrir ykkur hvaða nýtt orð er hægt að búa til. Hljóðgreining Að finna upphafsstaf: Búið til renninga með pörum af myndum af ákveðnum opnum. Spyrjið hvort orðið byrji á /r/, hæna eða rós? Leikið með upphafsstafi barnanna, reynið að finna hluti í bókinni með sömu upphafsstöfum. Leggið áherslu á upphafsstafi barnanna í byrjun og haldið svo áfram með fleiri stafi í nöfnum þeirra. Áhugi barna á bókstöfum er vakinn með því að beina athygli barna að upphafsstöfum í nöfnum þeirra. Börn sem verða snemma meðvituð um stafina eiga auðveldara með að læra að lesa. Spæjaraleikur – Hvað eru margir hlutir á opnunni sem byrja á tilteknum bókstöfum eins og /s/ eða /b/? Margræð orð Orð eða setningar sem geta merkt fleira en eitt, eru margræð. Skoðið hvaða orð í bókinni hafa margræða merkingu. Ræðið hvað orðin þýða og að þau geta táknað fleira en eitt (pera, horn, renna, tala). Útskýrið merkingu orðanna. Sjá hugmyndir á vefsíðunni Út fyrir bókina.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=