| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir grunnskóla | 2893 | MMS 2024 | 93 Í bænum Kúri laumast stundum inn í strætisvagn og ferðast yfir holt og hæðir til næsta bæjar. Þar er vinsæl ísbúð og lokkandi ilmur berst frá bakaríinu. Kúra þykir kleinulykt alveg einstaklega góð. Hér eltir hann ungling sem er að borða nýbakaða kleinu og vonast til að einhverjir molar detti á götuna. Því miður rann mávur líka á lyktina og fuglinn varð fyrri til þegar unglingurinn missti síðasta kleinu- bitann. Kettinum finnst hins vegar bensínlyktin á bensínstöðinni ekki jafn góð. Bensínbílarnir menga líka andrúmsloftið. Hann er því ánægður með að rafbílum á bílastæðum bæjarins hafi fjölgað. Hafið þið farið í bæjarferð með strætó? Almenningsgarður Kúri er hrifinn af almenningsgarðinum í bænum. Garðurinn er vinsæll viðkomustaður fólks enda ríkir þar yfirleitt kyrrð og ró. Gestir njóta þess að vera innan um ilmandi gróðurinn, rölta um gangstígana, vaða í tjörninni, gefa öndunum eða setjast á bekk til spjalla saman um lífið og tilveruna. Kötturinn er hins vegar kominn í garðinn til að fara í æsispennandi könnunarleiðangur. Honum finnst mjög gaman að læðast á milli runnanna eins og tígrisdýr í skógi og klifra í trjánum. Starfsfólk almenningsgarðsins sér um að rækta garðinn með því að gróðursetja plöntur eða vökva blómabeðin og unglingar í sumarvinnu hjálpa til. Sum trén eru því orðin nokkuð hávaxin. Kúri kann líka að meta hvað fuglalífið er fjörugt en lætur það ekki trufla sig þegar svanirnir blaka vængjunum með fjaðraþyt. Hann hefur nefnilega komið auga á nokkra andarunga sem leika sér að því að láta sig hverfa ofan í vatnið og skjótast svo upp úr kafi annars staðar. Kúri er alveg hissa en hættir sér ekki nálægt vatninu. Honum finnst langöruggast að halda sig uppi á brúnni. Hvað finnst ykkur skemmtilegt að gera í almenningsgörðum? Gerum og græjum Mannfólk er alltaf að gera eitthvað, rétt eins og kötturinn Kúri. En honum finnst stundum einkennilegt hvað það er sem fólk er alltaf að gera og græja. Hann skilur til dæmis ekki af hverju manneskjur eyða svona miklum tíma í að taka til. Þarf virkilega að sópa, skúra eða ryksuga gólfið svona oft? Hvað finnst ykkur? Eins finnst honum það skrýtið að bora eða skrúfa í vegg til að hengja eitthvað upp. Kúri er samt hrifinn af feluleik og hann fær aldrei leið á að stökkva til og frá. Hann sveiflar líka skottinu þegar einhver sest niður til að prjóna því þá gefst kjörið tækifæri til að elta hnykilinn. Hvað finnst ykkur skemmtilegt að gera? Íþróttir Kötturinn Kúri hefur tekið eftir því hvað margt fólk hefur gaman af að vera í alls konar íþróttum. Sumir virðast vera með mjög mikið keppnisskap, aðrir vilja rækta líkamann með því að hreyfa sig og enn aðrir sækja í útiveruna sem fylgir vissum íþróttagreinum. Kúri skilur það vel. Sumir vilja líka þjálfa hugann. Flestir virðast finna eitthvað við sitt hæfi því það eru til alls konar íþróttir: Boltaíþróttir, fimleikar, bardagaíþróttir, skák, golf, hestaíþróttir, dans, frjálsar íþróttir, vetraríþróttir, sund og fleira skemmtilegt sprikl. Kúri hefur samt mestan áhuga á badminton enda er hann sleipur í að fiska flugur. Hvaða íþróttir finnst ykkur skemmtilegar?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=