Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir grunnskóla - íslenska sem annað tungumál

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir grunnskóla | 2893 | MMS 2024 | 88 Tilfinningar Nágrannar Kúra eru tilfinningaríkir og þegar hann þvælist um hverfið verður hann vitni að mikilvægum stundum í lífi þeirra. Það er til dæmis afskaplega spennandi að eiga afmæli og Kúri verður alltaf spenntur að sjá hvað leynist í afmælispökkunum. Þegar afmælisbarnið fær gjöf brjótast fram margs konar tilfinningar eins og gleði og þakklæti. Foreldrar geta líka verið stoltir af barninu sínu þegar það prófar eitthvað nýtt. Kúri á það til að verða montinn þegar hann nær að klifra hátt upp í tré og kötturinn fær alltaf fiðring í magann þegar hann eltist við býflugu. En sumar tilfinningar geta verið óþægilegar; eins og afbrýðisemi, pirringur og reiði. Og vissar kringumstæður geta valdið kvíða eða hræðslu. Þá hjálpar að fá hlýtt faðmlag – það veit Kúri. Hvaða tilfinningar finnst ykkur óþægilegar? Í skólanum Kötturinn Kúri gægist stundum inn um glugga á leikskólanum. Þar er alltaf mikið fjör og margt um að vera. Í dag eru krakkarnir að leika sér með alls konar dót og klæða sig í búninga. Finnst ykkur gaman að klæða ykkur í búninga? Sum barnanna hafa eignast vin eða vinkonu og nokkur þeirra eru í hvíld. Þau slaka á og hlusta á góða sögu. Kúra langar að vera með. Hann læðist því inn í skólabygginguna án þess að nokkur kennari sjái til og rambar inn í kennslustofu. Þar er verið að kenna stærðfræði og lestur en Kúri er áhugasamari um krakkana sem eru að spila alls konar spil. Hvað eru börnin að gera? Listasmiðja Það er fjörugt í listasmiðjunni í skólanum og þar ríkir mikil einbeiting. Börnin eru að skapa litskrúðug listaverk með leir, trélitum, skærum, lími, málningu, garni og prjónum, nál og tvinna. Kúri tekur fullan þátt í að mála með loppunum en svo berast forvitnileg hljóð úr smíðakróknum. Þá koma litrík spor Kúra upp um hann. Getið þið rakið slóð Kúra? Smíðakennarinn klappar honum á kollinn og lætur hann út áður en illa fer. Hafið þið gaman af því að búa eitthvað til með höndunum? Lærum og leikum Kettinum Kúra finnst áhugavert að fylgjast með krökkum leika sér. Börn eru svo uppátækjasöm og fást við svo margt skemmtilegt. Sum hafa gaman af því að búa eitthvað til og þá er gott að hafa kubba, liti, skæri eða sand við höndina. Önnur vilja fara í þykjustuleik, spila á spil eða leika listir sínar með bolta. Enn önnur hafa gaman af tónlist eða dansi og þó nokkur börn hafa áhuga á dýrum. Kúri kann að meta það. Hann malar af ánægju þegar krakkarnir klappa honum eða klóra á bak við eyrun. Hvað finnst ykkur gaman að gera þegar þið eruð að leika ykkur? Skólalóð Bjallan í skólanum hringir hátt og hvellt. Það eru komnar frímínútur og börnin streyma út um dyrnar út á skólalóðina. Kúri lætur sig ekki vanta því þar iðar allt af lífi og dillandi hlátur heyrist úr öllum áttum. Krakkarnir þeysa um á hlaupum eða hjólum. Sum róla sér, önnur ýta, elta bolta, renna sér, sippa, hoppa, vega salt, moka, klifra í kastala, kríta á stéttirnar eða taka þátt í leik á sparkvellinum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=