| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir grunnskóla | 2893 | MMS 2024 | 86 Góðan daginn Í byrjun hvers dags er margt sem þarf að gera – líka heima hjá kettinum Kúra. Allir í fjölskyldunni vakna, klæða sig í föt, borða morgunmat, smyrja nesti og koma sér af stað út í daginn. Foreldrarnir fá sér kaffi og hjálpa börnunum að útbúa nesti. Þau passa upp á að börnin bursti tennur áður en þau fara í skólann og leikskólann. Fjölskyldan æðir um í kappi við tímann því klukkan á veggnum tifar. Kúri fær fiðring í magann og fer líka á kreik. Hann byrjar daginn á að fá sér vatn að drekka og svolítinn kattamat. Síðan leggur hann af stað með trýnið á lofti í leit að nýjum ævintýrum. Hvað gerið þið í byrjun dags? Líkaminn Kötturinn Kúri er alveg einstaklega forvitinn. Stundum heyrir hann að eitthvað skemmtilegt er um að vera inni á baði. Í dag er verið að baða börnin á heimilinu. Þau fetta líkamann og bretta og skvetta þá vatni út um allt. Kúri reynir að víkja sér undan vatnsgusunum því honum finnst ekki gott að fá sápu í augun. En svo fer einhver að syngja í sturtunni og þá sperrir Kúri eyrun og sveiflar skottinu í takt við lagið: Höfuð, herðar hné og tær – hné og tær. Þekkið þið einhvern sem syngur í sturtu? Föt Kötturinn Kúri á marga góða vini í hverfinu, sérstaklega í leikskólanum og grunnskólanum. Kúri hleypur beinustu leið þangað ef hann vill komast í fjörugan félagsskap. Í leikskólanum gengur mikið á þegar allir þurfa að klæða sig í einu. Það getur verið erfitt fyrir litla fingur að hneppa, renna, smella og reima og þá er gott að geta fengið aðstoð. Og hvort er betra, að klæða sig í stígvélin áður en maður fer í kuldagallann – eða á eftir? Þetta er ekki einfalt verk! Kúra finnst bráðskemmtilegt að fylgjast með þegar hönd stingst út úr peysuermi eða fótur út úr buxnaskálm. Hann er líka hrifinn af strigaskóm og á það til að stökkva á reimarnar, líkt og hann sé að veiða orma. Hvaða föt finnst ykkur erfiðast að klæða ykkur í? Útiföt Þegar börnin í leikskólanum fara út lætur Kúri sig ekki vanta enda heyrist hlátur barnanna langar leiðir. Á veturna er meira að segja hægt að bruna á snjóþotu niður brekkuna á leikskólalóðinni. Krakkarnir hafa líka gaman af að veltast um í snjónum, hnoða snjóbolta og búa til snjókarl. Þá er betra fyrir þau að vera vel klædd og það er eins gott að vera í ullarsokkum og með hlýja vettlinga og húfu. Kúri þarf ekki að klæða sig í kuldagalla áður en hann fer út því hann er með svo þykkan feld. Það er líka eins gott því hann er kominn á bólakaf í snjóskafl. Getið þið fundið Kúra? Þegar hlýnar úti finnst börnunum skemmtilegt að hoppa í pollunum sem koma þegar snjórinn bráðnar eða renna sér í brekkunni og verða drulluskítug. Örsögur Höfundur: Kristín Ragna Gunnarsdóttir
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=