Orð eru ævintýri - hugmyndabanki fyrir grunnskóla - íslenska sem annað tungumál

| Orð eru ævintýri | Hugmyndabanki fyrir grunnskóla | 2893 | MMS 2024 | 6 Íslenska sem annað tungumál Hugmyndabankinn er samvinnuverkefni Austurbæjarskóla og Miðju máls og læsis. Menntamálastofnun sá um ritstjórn og umbrot. Markmið bókarinnar og hugmyndabanka fyrir kennslu í íslensku sem öðru tungumáli er að: • efla orðaforða fjöltyngdra barna á grunnskólaaldri • efla íslensku og stuðla að virku tvítyngi hjá fjöltyngdum börnum • gefa foreldrum og uppalendum verkfæri til þess að styðja við tungumálanám barna sinna á íslensku og heimamáli/heimamálum Bókin er ekki kennslubók í eiginlegum skilningi heldur myndaorðabók fyrir börn sem hægt er að nýta í kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Hugmyndabankinn er hugsaður sem hvatning fyrir kennara og foreldra til að vinna með bókina og tungumálið á lifandi og skapandi hátt. Þar eru hugmyndir að verkefnum í tengslum við bókina sem eru til þess fallin að auka orðaforða og málnotkun nemenda. Verkefnin eru fjölbreytt og þarf ekki að vinna í ákveðinni röð. Sum verkefni fylgja ákveðnum opnum meðan önnur eru almenn og má nýta hvar sem er í bókinni. Hugmyndabankann má nota til að vekja áhuga og virkja ímyndunarafl bæði nemenda og kennara. Orð eru ævintýri er bók sem býður upp á hafsjó af verkefnum og þemavinnu með nemendum sem eru að læra íslensku. Rannsóknir sýna að árangursríkasta aðferðin til að vekja áhuga barna á að lesa sjálf er að lesa upphátt fyrir þau. Þegar lesið er fyrir börn er verið að leggja grunn að lestrarnámi þeirra og þegar börn hlusta á skemmtilegar sögur vaknar hjá þeim löngun til að lesa upp á eigin spýtur. Með því að lesa fyrir börn er hægt að efla orðaforða þeirra en orðaforði er mikilvægur fyrir mál og læsi. Barn sem hefur mikinn orðaforða hefur meiri færni til djúpstæðrar hugsunar og á auðveldara með tjáskipti en barn með lítinn orðaforða. Barn með góðan orðaforða á auðveldara með að bæta við orðaforða sinn í markvissum lestrarstundum. Því þarf að leggja áherslu á að efla orðaforða barna með lestri og samræðum frá fyrstu tíð. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að lestur og samræður um efnið sé aðferð sem eflir orðaforða barna hvað mest. Þess konar samræðulestur felst í því að nefna persónur, hluti og athafnir á myndunum og tengja við reynsluheim barna (Kassow, 2006). Þegar börn eldast verða samræðurnar flóknari og byggjast á krefjandi spurningum og heimspekilegum vangaveltum. Mikilvægt er að skapa jákvætt andrúmsloft í kringum lestrarstundir þar sem bæði börn og starfsfólk/forsjáraðilar njóta þess að lesa og spjalla saman um efnið. Þegar verið er að vinna með orðaforða er mikils virði að þjálfa orð sem hægt er að nota í samræðum við börnin. Orð og orðasambönd eins og: já einmitt, nákvæmlega, glæsilegt, vel gert! Í samskiptum er lykilatriði að hlusta á börnin. Taka eftir því hvaða umræður skapast, hvaða spurningar koma upp hjá þeim og bæta síðan við umræðuna, útvíkka og útskýra nánar. Hafa ber í huga að koma að einfaldri málfræði, svo sem nútíð, þátíð, eintölu, fleirtölu og stigbreytingu, í töluðu máli alveg frá upphafi. Sem dæmi má benda börnum á stærðarhugtök, tala um hluti sem gerðust í gær og nefna hluti bæði í eintölu og fleirtölu. Hægt er að

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=