6 Samkvæmt samningnum tók Námsgagnastofnun að sér umsjón með gerð umrædds rits, að ráða höfunda, sjá um ritstjórn, yfirlestur, hönnun, umbrot og prentun. Fékk stofnunin Guðrúnu Kristinsdóttur prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Nönnu Kristínu Christiansen verkefnastjóra á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar til að sjá um gerð ritsins. Bókin var endurskoðuð og uppfærð af höfundum í samstarfi við Menntamálastofnun árið 2022 í framhaldi af ályktun alþingis árið 2020 um að fela forsætisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra að koma á skipulögðum forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Forvarnirnar ættu að vera samþættar kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum og einnig eiga sér stað á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi. Bók þessi er gott verkfæri í vinnu starfsfólks skóla í þessum málaflokki. TIL LESENDA Umfjöllunarefni þessarar handbókar er ofbeldi sem börn verða fyrir. Markmiðið er að upplýsa kennara og annað starfsfólk skóla um einkenni og áhrif ofbeldis á börn og að vekja athygli á forvörnum, inngripi og úrræðum sem eru til staðar til að tryggja sem best velferð nemenda. Grunnskólinn er eina stofnun samfélagsins sem öllum ber lagaleg skylda til að sækja og þar er hægt er að ná til allflestra. Þar að auki sækja langflest börn leikskóla og framhaldsskóla. Samanlagt eru flest börn því a.m.k. 15 ár í skóla og einmitt á þeim árum sem þroski einstaklingsins er talinn vera mestur. Af þessum ástæðummá fullyrða að áhrif kennara og annarra starfsmanna skóla á börn og þar með framtíðarsamfélagið séu veruleg. Það er von okkar að þetta rit verði til gagns.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=