53 að leggja mat á áhættu og skilja afleiðingar gjörða sinna. Yngri börn geta átt í erfiðleikum með að skilja afleiðingar þess að birta myndir eða viðkvæmar persónuupplýsingar um þau sjálf eða aðra. Í ljósi þess að stafrænt ofbeldi tengist oft kynlífshegðun er nauðsynlegt að kynfræðsla taki mið af þeim aðstæðum og hættum sem skapast í stafrænum heimi. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út leiðbeiningar um réttindi barna í stafrænu umhverfi. Þar er fjallað um atriði sem aðildarríki barnasáttmálans þurfa að gæta að til þess að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt honum. Barnaréttarnefndin áréttar sérstaklega mikilvægi þess að foreldrar og fagfólk sem vinnur með börnum fái viðeigandi fræðslu og þjálfun. MIÐLALÆSI 5.7 Á Íslandi hefur aukin áhersla verið lögð á að efla stafrænt læsi barna. Í menntastefnu fyrir árin 2021–2030 er talað um fimm stoðir sem styðja eigi við gildi hennar. Ein af þessum stoðum er hæfni fyrir framtíðina þar sem leggja á áherslu á stafræna tilveru nemenda. Miðlalæsi er ein öflugasta vörnin gegn stafrænu ofbeldi. (Fjölmiðlanefnd, 2021) Með markvissri kennslu í miðlalæsi stuðlar skólinn að öruggari netnotkun barna. Víða um hinn vestræna heim er lögð rík áhersla á að kenna börnum að vera læs á miðla, þar á meðal netið. Hugtakið miðlalæsi vísar til færni, þekkingar og skilnings sem gerir notendum kleift að nýta sér miðla á öruggan og skilvirkan hátt. Það felst ekki síst í því að efla með þeim gagnrýna hugsun og kenna þeim að vera ábyrgir notendur og samfélagsþegnar. Markmiðið er að börn læri að skilja hvað liggur að baki fjölmiðla- og netefni hver setji efnið fram, á hverju hann/hún byggi fullyrðingar sínar, eftir hverju hann/hún sækist með því og hverjir séu hagsmunir viðkomandi. Eftirfarandi er dæmi um markmið miðlalæsis: • Að börn læri að greina áhrif miðla, meðal annars auglýsinga á mótun samfélagsins, t.d. áhrif á staðalmyndir kynjanna. Hvernig birtast konur og karlar í auglýsingum, hver er munurinn og hvaða skilaboðum er komið á framfæri? • Að börn læri um þá ábyrgð sem felst í því að setja efni á netið. Hvaða lög gilda um það? Hvað verður um efni sem sett er á netið? Hvaða áhrif getur það haft?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=