Ofbeldi gegn börnum

44 Í rannsókn Lilju Bjargar (2018) kemur fram að meirihluti foreldranna fór í vörn, þegar rætt var við þá. Að mati þátttakenda í rannsókninni afneituðu flestir þessara foreldra vandanum og höfnuðu samstarfi um lausn hans og skólinn reyndist undantekningalaust neyðarlega gagnslaus. Þessar niðurstöður sýna á afgerandi hátt hversu flókið það getur reynst að leysa eineltismál. Eðlilega eru hér miklar tilfinningar á ferð hjá foreldrum beggja barna, barnsins sem verður fyrir einelti og foreldrum þess sem ásökunin beinist að. Það er sársaukafullt fyrir foreldra að horfa á eftir barninu sínu í skólann þegar þeir telja sig ekki geta treyst starfsfólkinu fyrir velferð þess. Málið getur líka reynst mikil áskorun fyrir kennara sem þarf að bera hag allra nemenda sinna fyrir brjósti og forðast að taka þarfir eins fram yfir annan. Hér er lykilatriðið traust sem skólinn og sérhver kennari þarf að ávinna sér frá upphafi og áður en vandinn verður til. Í slíku trausti felst að foreldrar séu sannfærðir um að starfsfólki skólans sé annt um börn þeirra og sýni þeim öllum umhyggju og ekki síst þegar á móti blæs. Formið á skilaboðum kennarans getur skipt sköpum um viðbrögð foreldra og barns. Upplýsingar til foreldra um einelti barns ásamt með tillögu um samvinnu um bætt samskipti og stuðning er mun líklegri til árangurs en tilkynning um að barnið beiti einelti. Það er þannig mun jákvæðara fyrir foreldra að heyra að barnið þeirra þurfi aðstoð en að heyra að það sé komið með stimpilinn gerandi. Nauðsynlegt er líka að kennari geri ekki lítið úr áhyggjum foreldra, hver sem skoðun þeirra kann að vera. Áhyggjurnar eru raunverulegar og ef foreldrar upplifa að þeim sé hafnað þá hverfur traustið. Því fylgir jafnan mikil áskorun að leysa eineltismál en líkurnar á lausnum eru mestar þegar kennarar, foreldrar og barnið vinna saman, hvoru megin borðsins sem þau eru. Þá er nauðsynlegt að upplýsingar milli skóla og heimilis séu í föstum farvegi, að kennari, foreldrar og barn tali, hlusti og taki ákvarðanir saman. Fagna þarf því sem gengur vel og gleðjast yfir hverju jákvæðu skrefi, án þess að líta fram hjá hinu. Loks er mikilvægt að fylgja eineltismálum vel eftir og tryggja að þau taki sig ekki upp aftur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=