Ofbeldi gegn börnum

30 Einstaklingar sem hafa verið beittir andlegu ofbeldi í bernsku virðast oft glíma við afleiðingarnar fram á unglings- og fullorðinsár. Samanborið við aðra illa meðferð á börnum er talið að andlegt ofbeldi spái sterkast fyrir um sálræna erfiðleika síðar í lífinu, t.d. þunglyndi, lítið sjálfstraust o. fl. Erfitt getur reynst að greina andlegt ofbeldi og oft skipta barnaverndaryfirvöld sér ekki af ofbeldi af þessu tagi (Royse, 2016; Crittenden, Claussen og Sugarman, 1994). Þetta er alvarlegt því að andlegt ofbeldi hindrar að barn vaxi og dafni. Tekist er á um það hvort skilgreina skuli andlegt eða tilfinningalegt ofbeldi út frá afleiðingum á barnið eða hvort miða eigi við hegðun þess sem því beitir. Skilgreining út frá afleiðingum kemur í veg fyrir að gripið sé inn í áður en áhrifin koma fram. Nokkur samstaða er um að skilgreina andlegt/tilfinningalegt ofbeldi fyrst og fremst út frá hegðun þess sem því beitir, þó að alltaf þurfi að hafa afleiðingar í huga líka (Miller-Perrin og Perrin, 2012). Andlegt/tilfinningalegt ofbeldi helst oft í hendur við aðra illa meðferð. Afleiðingar birtast í tilfinninga- og hegðunarvanda og þessi börn glíma við marktækt fleiri slík vandkvæði en önnur. Kennarar þekkja yfirleitt vel til ýmissa tegunda hegðunarerfiðleika og þess vegna eru þeir ekki taldir upp hér. Hér sem annars staðar þarf að hafa í huga að einkenni sem hér var lýst geta stafað af öðru en andlegu ofbeldi. Eftir hverju gæti kennari tekið? Við sjáum á ofangreindum lýsingum á einkennum hjá börnum sem búa við andlegt ofbeldi að þau eru misjafnlega augljós. Sum börn verða uppstökk og jafnvel árásargjörn en önnur draga sig inn í skel. Til að greina merki um ofbeldi af þessu tagi er gagnlegt að taka eftir hegðun foreldra en það krefst þess að starfsfólk skóla eigi í beinum og reglubundnum samskiptum við þá. Ef grunur vaknar um að andlegt ofbeldi geti verið á ferð heima má hafa í huga: • merki um skeytingarleysi í garð barns, • að orð falli endurtekið sem sýna lítinn skilning á þörfum barns, • illt umtal eða áfellisdóma í garð barns sem virðast tilefnislausir. Vegna þess hve illgreinanlegt andlegt ofbeldi er og þar eð afleiðingar geta verið alvarlegar er sérstök ástæða til að gefa slíku gaum. Vaxandi skilningur er á alvarlegum afleiðingum andlegs ofbeldis fyrir börn. Kennarar og námsráðgjafar geta hjálpað þessum börnum með því að treysta við þau tilfinningatengsl á meðan á skólagöngu þeirra stendur. Slík tengsl geta verið barni ómetanleg bæði á meðan og eftir að tekið er á vandanum. Skeytingar- eða skilningsleysi og áfellisdómar geta verið merki um andlegt ofbeldi gegn barni

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=