28 Aðrar ástæður en vangeta foreldra eða umsjáraðila geta valdið vanrækslu, svo sem ónóg samfélagsleg úrræði sem forsjáraðilar hafa ekki vald yfir, veikt félagslegt öryggisnet, fátækt eða sjúkdómur, sem leiðir til þess að barni farnast illa (Laird og Hartman, 1985). Þegar þanig er ástatt er talað um samfélagslega vanrækslu. Nýlega hefur slík kerfislæg misbeiting verið rannsökuð hér á landi hvað snertir illa meðferð barna á dvalarstofnunum en hún þarf ekki að einskorðast við það (Forsætisráðuneytið, 2008). Almenn samstaða er um að vanræksla barna hafi alvarleg og neikvæð áhrif á þau (Dubowitz o.fl., 1993). Kennarar ættu að hafa í huga að vanræksla vísar til endurtekins eða viðvarandi ástands fremur en til einstakra atburða. Kennari skyldi því fylgjast vel með barni þegar grunur vaknar um viðvarandi vanrækslu. En skoðum þetta gróflega eftir aldri. Vanhirða ungbarna þekkist til dæmis af því að barn er látið liggja án þess að skipt sé á því, það er óhreint, húðbruni sést undan bleyju, umhirðu er áfátt eða af vondri lykt. Ef fæða er slæm eða ófullnægjandi getur það haft alvarlegar afleiðingar. Það sést af því að dregið er af barninu, það er svangt og horast niður. Slík þekkt dæmi eru þegar komið er að barni sem hefur legið tímunum eða dögum saman, án þess að fá hvorki vott eða þurrt né að skipt hafi verið á því. Hjá eldri börnum má merkja vanrækslu á slæmri tannhirðu eða að ekki er farið með barn til læknis eða læknir sóttur til þess. Barn er ekki þvegið eða það látið þvo sér, skipta um föt og það lyktar illa. Eitt merki um vanrækslu getur verið ef börn eru ekki með nesti, þegar til þess er ætlast, þau eru ósnyrtileg og illa hirt dögum saman. Börnin koma veik í skólann eða mæta ekki og ekki er látið vita að heiman. Öll slík vanhirða hefur alvarleg áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barns. Skortur á athygli og örvun leiðir m.a. til seins málþroska og lélegrar hæfni til að mynda tengsl. Sum börn verða óvirk, óörugg og hræðsluleg. Önnur eru óróleg og ofvirk. Þegar slík börn skipta um umhverfi jafna þau sig oft fljótt líkamlega en síður andlega og sá skaði getur fylgt þeim allt lífið. Vanræksla barna er stundum talið olnbogabarn í umræðu um ofbeldi gegn börnum þar sem aðrar gerðir hafa fengið meiri athygli. En vanræksla virðist hlutfallslega algeng (Barnaverndarstofa, 2015). Okkur skortir þó athuganir á vanrækslu barna hér á landi en í nýlegum ritgerðum háskóla-
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=