SIGRÚN ELDJÁRN ÓBOÐNIR GESTIR
ÓBOÐNIR GESTIR SIGRÚN ELDJÁRN
ÓBOÐNIR GESTIR ISBN 978-9979-0-3016-4 Hljóðbók má hlaða niður af vefsíðunni www.mms.is ©2009 texti og myndir: Sigrún Eldjárn Umbrot og kápuhönnun: Sigrún Eldjárn Ritstjóri: Sylvía Guðmundsdóttir 1. útgáfa 2009 önnur prentun 2012 þriðja prentun 2019 fjórða prentun 2023 Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Kópavogi Prentvinnsla: Litróf ehf. – umhverfisvottuð prentsmiðja
EFNISYFIRLIT UNA HRÝTUR. . . . . . . . ........ 5 EIN HEIMA . . . . . . . . . ......... 8 DULARFULLT HLJÓÐ . . . . . ..... 13 HLERINN . . . . . . . . . ......... 16 ÆVAR . . . . . . . . . . .......... 21 UNA. . . . . . . . . . . ........... 24 ÁSI . . . . . . . . . . . ............ 28 BANGSI . . . . . . . . . .......... 31 ÞREPIN . . . . . . . . . . .......... 35 Í KIRKJUNNI . . . . . . . . ........ 40 LOKAÐ OG LÆST. . . . . . ...... 47 LÖGGAN . . . . . . . . . ......... 50 SOFANDI STRÁKUR. . . . . ...... 54
5 UNA HRÝTUR – Allt í einu kemur loðin og ljót krumla inn í tjaldið! Ævar hvíslar og gerir röddina hása og draugalega. – Krumlan grípur um fótinn á stelpunni! Hún öskrar! Svo dregur krumlan hana æpandi út úr tjaldinu! Loðnir fingurnir læsast um hálsinn á henni og …
Ævar snarþagnar þegar hann heyrir skyndilega léttar hrotur. Hann lítur á Unu. Nei, hann trúir þessu ekki. Hún er sofnuð! Hvernig getur hún sofnað þegar hann er að segja henni svona hryllilega sögu? Einmitt þegar hann ætlaði að láta skrímslið slíta hausinn af stelpunni! Ævar er vonsvikinn. Það er sko ekki hægt að hræða hana Unu. Hann liggur grafkyrr. Þau kúra í svefnpokunum sínum inni í ofurlitlu grænu tjaldi. Andlitið á Unu er ekki nema tuttugu sentimetra frá Ævari. Nú getur hann skoðað hana vel af því hún er sofandi. Honum finnst hún sæt. Ef strákarnir í skólanum vissu þetta nú! 6
Að hann skuli liggja hér í tjaldi uppi í sveit með sætri stelpu! Að vísu eru þau ekki ein í tjaldinu. Því á milli þeirra liggur hann Ási. Hann er bróðir Unu. Þarna liggur hann steinsofandi með stóra bangsann sinn í fanginu. Ási er ekki nema fimm ára gamall.
EIN HEIMA Nú hefur Ævar verið heila viku í sveitinni hjá Unu og Ása. Bærinn þeirra heitir Bakki. Þar er lítil og falleg sveitakirkja með rauðu þaki. Í kirkjunni eru gamlir kertastjakar og fleiri dýrmætir gripir úr kopar og silfri. 8
9 Foreldrar Unu reka fjárbú á Bakka. Þau eiga margar kindur. En núna yfir sumarið eru þær allar langt uppi í fjöllum. Undanfarna mánuði hafa þau hjónin búið til ýmislegt úr ullinni af kindunum. Þau hafa ofið og prjónað og saumað og gert marga fallega hluti. Í gær hlóðu þau svo öllum þessum vörum í bílinn sinn. Síðan lögðu þau af stað með þær á markað sem er haldinn austur í Firði. Þar ætla þau að reyna að selja framleiðsluna. Á meðan þurfa krakkarnir að vera einir heima. Þegar pabbi og mamma Unu sögðu að þau ættu að vera ein í tvo sólarhringa varð Ævar svolítið hræddur.
10 – Iss, það verður allt í lagi með ykkur. Þið eruð nú bæði orðin fjórtán ára, segir pabbi Unu. Næstum fullorðin! – En Ási? Fer hann ekki með ykkur? spyr Una. – Nei, við getum ekki tekið hann með. Það verður svo mikið um að vera á markaðnum. Hann flækist bara fyrir. Og svo voru þau farin. – Jibbí! hrópar Una og dansar stríðsdans. Það er æðislegt að fá að vera ein heima! – Jibbí, jibbííí! hermir Ási eftir henni. Svo hleypur hann beinustu leið inn í hlöðu og hoppar þar á heyböggunum.
12 En þegar líður á kvöldið og Ási á að fara í háttinn ráða þau ekkert við hann. Hann harðneitar að fara að sofa og lætur öllum illum látum. Þá fær Una góða hugmynd. – Heyrðu, Ási! Hvað segirðu um að sofa í tjaldinu í nótt? Hann rýkur af stað og finnur litla svefnpokann sinn og bangsann. – Ætlarðu að láta Ása vera einan úti í tjaldi í alla nótt? spyr Ævar hissa. – Nei, ertu klikkaður! svarar Una hlæjandi. – Við sofum auðvitað líka í tjaldinu. Þannig atvikaðist það að þau sváfu úti í tjaldi þessa nótt. Ef þau hefðu ekki gert það hefði kannski allt farið á annan veg! Já, já, jááá! Sofa í tjaldinu!
13 DULARFULLT HLJÓÐ Eftir sjö mínútur var Ási steinsofnaður. Það var þá sem Ævar fór að segja söguna. Honum fannst Una vera eitthvað svo svöl og langaði til að hræða hana svolítið. Hann vildi gera hana virkilega hrædda svo hún sæi að hann væri enginn aumingi. En svo sofnar hún bara í miðri sögu. Ævar er móðgaður. Nú liggur hann glaðvakandi í tjaldinu og hlustar á systkinin anda. Fuglasöngurinn heldur líka fyrir honum vöku. Sofa fuglar aldrei? Hvernig er það eiginlega? Það eru örugglega liðnir tveir klukkutímar síðan Una sofnaði en honum hefur ekki komið dúr á auga.
14 Ævar ákveður að skríða út til að pissa. Þá man hann að tjaldið þeirra stendur rétt við kirkjugarðinn. Hann langar ekkert til að vera einn úti í rökkrinu. Og ekki getur hann vakið Unu og beðið hana að koma með sér út að pissa! Nei, það gengur sko ekki!
15 En þegar það dimmir meira og ágústnóttin færist yfir hljóðna fuglarnir. Þá fer Ævar að dotta. Hann byrjar að dreyma. Hann dreymir að hann leiði Unu og að hún kreisti hönd hans. Þá hrekkur hann upp! Ási liggur ofan á hendinni á honum. Ævar ýtir honum frá og sest upp. Hvað var það sem vakti hann? Var það ekki eitthvert hljóð? Ævar er næstum viss um að hann hafi heyrt eitthvað. Jú, nú kemur það aftur! Hann heyrir hurðaskell og hann heyrir líka RADDIR!
HLERINN Nú hikar Ævar ekki. Hann tekur í öxlina á Unu og hristir hana. – Una, vaknaðu! Það er einhver fyrir utan tjaldið! Ég heyrði að einhverjir voru að tala saman. Ævar talar eins hljóðlega og hann getur. Una sprettur upp eins og stálfjöður. Ha? Hvað? Hver? Hvar? Uss!
17 Hún nuddar augun og geispar. Svo mjakar hún sér úr svefnpokanum. Hún kíkir út úr tjaldinu og skríður svo alveg út. Ævar fer á eftir henni með hálfum huga. Hann hugsar um kirkjugarðinn. Hann er fullur af dauðu fólki og beinagrindum. Það er frekar dimmt úti. Honum líst ekki á blikuna. Það er ekki um að villast. Ljósskíma berst gegnum litað glerið í kirkjugluggunum. Það falla gulir, rauðir, bláir og grænir geislar á grasið. Og þeir hreyfast! Sjáðu! Það er einhver inni í kirkjunni!
18 Una grípur í handlegginn á Ævari. – Eigum við ekki að hringja í lögguna? spyr hann. – Löggan er svo langt í burtu, svarar Una. Við erum lengst uppi í sveit og þeir eru alveg klukkutíma á leiðinni hingað. Komdu, við skulum fyrst athuga hvað er í gangi. Kannski eru þetta bara einhverjir sem við þekkjum. Una læðist á undan. Ævar kemur á eftir henni. Þau skilja Ása eftir í tjaldinu. Hann er hvort sem er steinsofandi. Una klifrar yfir kirkjugarðsvegginn. – Bíddu, Una. Það stakkst eitthvað í hælinn á mér. Það er einhver með vasaljós þarna inni! Við verðum að gera eitthvað!
Ævar stansar til að geta kippt svolítilli tréflís úr hælnum á sér. Una er komin alveg að einum glugganum. Ævar nær flísinni og hraðar sér svo á eftir Unu. Hann snarast yfir vegginn, rekst utan í legstein … og stígur svo beint ofan á hlera í jörðinni. En hlerinn er fúinn. Hann brotnar og Ævar hverfur ofan í jörðina! Una tekur ekkert eftir því. Hún heldur að Ævar sé enn á eftir henni.
20 – Sjáðu, hvíslar Una, það er einhver karl þarna inni. Mér líst alls ekki á hann! Hún tekur naglaspýtu úr hrúgu sem er við kirkjuvegginn. – Komdu, við förum inn! Taktu líka spýtu. Una gengur að hurðinni og sviptir henni upp. Það er ekki fyrr en hún stendur í dyrunum með spýtuna á lofti að hún tekur eftir því að Ævar er ekki með henni. Hún stendur alein frammi fyrir karlinum í kirkjunni! En hann er ekki einn!
21 ÆVAR Þegar Ævar dettur niður um hlerann er hann viss um að nú sé hans síðasta stund runnin upp! Hjálp! Nú dett ég ofan í ógeðslega gröf og lendi á rotnuðu líki! hugsar hann. Svo skellur hann niður á hart moldargólf. Vinstri handleggurinn beyglast undir honum og hann finnur nístandi sársauka. Hann liggur kyrr og vorkennir sjálfum sér. Ég hefði ekki átt að koma hingað í sveitina. Ég hefði bara átt að vera í bænum í allt sumar. Ég hlýt að drepast hérna niðri! En svo áttar hann sig á því að það þýðir ekkert að láta eins og aumingi. Hann verður að komast upp aftur.
22 Ævar lítur í kringum sig. Dauf ljósskíma berst niður til hans. Hann sér að hann er staddur í svolitlu herbergi. Það eru hlaðnir steinveggir allt í kring. Fljótt á litið sér hann engin rotnandi lík. En hvað er þarna í horninu? Eitthvað sem glampar á. Ævar þokar sér hægt og hikandi nær. Verkurinn í handleggnum hefur aðeins dofnað. Vonandi er hann ekki brotinn.
Þegar Ævar kemur alveg að hrúgunni í horninu bregður honum í brún. Holar augntóttir og skælbrosandi munnur blasa við! Þetta er beinagrind! Hann hrekkur við og flýtir sér aftur að opinu sem hann féll niður um. Það er of hátt fyrir ofan hann. Hann nær alls ekki upp. – Una! kallar hann. Komdu! Komdu strax og hjálpaðu mér!
24 UNA Una stendur stjörf í kirkjudyrunum. Karlinn er ekki einn. Það er kona með honum. Þau eru bæði dökkklædd og með húfur ofan í augu. Konan er með stóran poka. Þau eru að setja kirkjumuni ofan í hann. Gömlu gripina sem tilheyra kirkjunni! Una sér að fallegu koparkertastjakarnir eru horfnir af altarinu. Þeir eru örugglega komnir ofan í pokann líka. Fólkið stirðnar upp þegar það sér Unu. Konan lýsir með vasaljósi framan í hana. – Hvern fjandann ert þú að gera hér? spyr hún reiðilega. Svo snýr hún sér að karlinum. – Sagðirðu ekki að það væri enginn heima hérna á bænum, aulinn þinn?
26 – Jú, ég var alveg viss um það, svarar karlinn. Ég sá fólkið aka burt og ég var búinn að ganga úr skugga um að það væri enginn í húsinu. – En hvað er þá þetta? segir konan og bendir á Unu. Sýnist þér þetta kannski vera draugur úr kirkjugarðinum? UPPVAKNINGUR!
27 – Nei, heldurðu það? svarar karlinn og glennir upp augun. Mér sýnist þetta bara vera venjulegur stelpukrakki. Varla erum við nú hrædd við hana! Una þokar sér aftur á bak. Hvað get ég gert? Hvar er Ævar? Hefur hann falið sig? Er hann virkilega svona mikil rola? Ætlar hann ekkert að hjálpa mér? Una veit ekki að Ævar er að kalla á hana. Hún heyrir bara reiðilegar raddir innbrotsþjófanna. Þessara kirkjuræningja! Þessa skítapakks! Hún finnur hvernig hún verður reiðari og reiðari. Ég verð að gera eitthvað til að stöðva þau! Þau mega ekki stela dýrgripunum úr kirkjunni!
28 ÁSI Ási litli vaknar allt í einu um miðja nótt. Hann er steinhissa þegar hann sér að hann er aleinn í tjaldinu. Hvar eru Una og Ævar eiginlega? Þau sem eiga að passa hann! Skilja hann svo bara einan eftir. Ási bröltir út úr tjaldinu. Hann skimar eftir krökkunum. Hvar eru krakkarnir? Það er hvergi ljós í gluggum í húsinu þeirra. En hann sér að það er ljós úti í kirkju. Getur presturinn verið að messa núna? Um miðja nótt? Kannski það. Þeir eru nú svo skrítnir þessir prestar! Þá heyrir hann einhvern kalla. Hvaðan kemur röddin?
29 Það er eins og röddin komi neðan úr jörðinni! – Una! kallar röddin. Hjálpaðu mér! Þetta er nú skrítið, hugsar Ási. Og frekar draugalegt! Hann fer aftur inn í tjaldið og nær í bangsann sinn. – Bangsi, ég held að einhver af dauða fólkinu í kirkjugarðinum sé að kalla á hana Unu. Heldurðu að eitthvert þeirra vilji fá hana niður í jörðina til sín? Bangsi svarar engu. Það fer hrollur um Ása. Hann vill alls ekki missa systur sína ofan í jörðina.
30 Ási heyrir röddina aftur. – Una! Hvar ertu! Hjálpaðu mér upp! Nú þekkir hann röddina. Þetta er rödd Ævars! Gott að þetta var ekki einhver sem á heima í kirkjugarðinum. Ási fer að kirkjugarðsveggnum. Ætli hann komist yfir hann? Fyrst hendir hann bangsanum yfir og svo reynir hann að klöngrast á eftir honum. Það gengur frekar illa. Honum tekst ekki að komast upp á vegginn. Hann er aðeins of hár. Ási litast um í rökkrinu. Hann sér gamlan trékassa og dröslar honum að veggnum. Hann klifrar upp á kassann og þaðan upp á vegginn. Svo stekkur hann niður í kirkjugarðinn.
31 BANGSI Ævar stendur beint fyrir neðan opið. Hann er búinn að hrópa og kalla en Una svarar honum ekki. Hvað hefur orðið um hana? Allt í einu kemur eitthvað fljúgandi niður um gatið til hans. Það lendir beint á hausnum á Ævari. Hann meiðir sig ekkert því það er mjúkt og loðið. Ævar hrekkur við og fær hroll um allan líkamann. Er þetta nokkuð loðna krumlan úr sögunni hans? En fljótlega sér hann að þetta er bangsi. Bangsinn hans Ása. – Bangsi minn! Hvar ertu? er kallað. Ævari léttir. Hann er þá ekki alveg aleinn í heiminum … með bangsa og beinagrind.
– Ási, kallar hann. Ég er hérna niðri. Passaðu þig að detta ekki niður líka. Það er gat hérna í jörðinni og ég er þar ofan í. – En bangsi? Hann er týndur? kjökrar Ási. – Nei, bangsi er hérna hjá mér. Ég skal passa hann. Farðu bara og finndu Unu. Hún er kannski í kirkjunni. Segðu henni að koma hingað og hjálpa mér upp. Ævar sér kringlótt andlitið á Ása þar sem hann gægist niður í holuna. – Flýttu þér! Það er beinagrind hérna. Mér finnst ekkert skemmtilegt að vera hérna niðri hjá henni! – Ókei, segir Ási. Hann rís á fætur og röltir að kirkjudyrunum. En þegar hann kemur nær heyrir hann raddir. Hann heyrir ekkert í Unu en hann heyrir reiðilegar raddir í vondu fólki. 32
34 Ási veit alveg hvernig raddir vont fólk hefur. Hann hefur oft heyrt í þeim í sjónvarpinu! Hann læðist því hljóðlega að dyrunum og kíkir inn. Þá sér hann Unu. Hann ætlar að hlaupa til hennar. En þegar hann sér ljótan karl og ljóta konu grípa í hana hættir hann við. Hann snýr sér og hleypur á harðaspretti heim að húsinu þeirra. Hann opnar dyrnar og hendist inn.
ÞREPIN Ævar bíður óþolinmóður. Nú hlýtur Ási að koma bráðum aftur með Unu. Það líður dágóð stund. En þau birtast ekki. Ohh! Hann er auðvitað svo lítill og vitlaus hann Ási. Hann hlýtur að hafa klúðrað þessu. Ævar er reiður og pirraður og kastar bangsanum frá sér. Bangsinn þeytist þvert yfir klefann … og lendir á beinagrindinni. Það skröltir í beinunum þegar hún hrinur í sundur. Hauskúpan rúllar yfir gólfið í áttina til hans. Ævari verður ekki um sel.
36 En hvað er nú þetta? Hann sér allt í einu móta fyrir þrepum sem eru höggvin í vegginn á bak við beinagrindina. Hann herðir upp hugann og ákveður að skoða þau betur. Þegar þangað er komið sér hann að undir beinagrindinni er snjáð trékista. Ævar er ekki nærri eins hræddur við beinagrindina eftir að hún datt í sundur og missti af sér hausinn. Hann sópar því beinunum frá og opnar trékistuna. Ævar grípur andann á lofti! Kistan er full af DÝRGRIPUM!
38 Þarna eru skartgripir og bikarar og fullt, fullt af silfurpeningum! Þetta hljóta að vera geysilega dýrmætir forngripir. Þá heyrir hann allt í einu í Unu. Röddin kemur að ofan. – Látið mig vera. Sleppið mér, ógeðin ykkar! Nú hikar Ævar ekki lengur. Hann fer að veggnum og fikrar sig upp þrepin, alveg upp að loftinu.
Þá kemst hann ekki lengra. En þarna er hleri sem hann ýtir á. Hlerinn er þungur en Ævar er sterkur og honum tekst að lyfta honum. Svo fer hann upp um opið. 39
Í KIRKJUNNI Það fyrsta sem Ævar sér þegar hann kemur upp um opið er blá hvelfing með gylltum stjörnum. Hann er staddur innst inni í kirkjunni. Svo sér hann þrjár manneskjur sem standa og stara á hann. Ein þeirra er Una en hitt fólkið hefur hann aldrei séð áður.
41 – Hver andskotinn! segir karlinn. Fleiri krakkar! Hann missir takið á Unu og hún hleypur strax til Ævars. Sjúkk, ég er fegin að þú komst!
42 – Alltaf batnar það! Hvað gerum við nú? segir karlinn við konuna. – Við læsum krakkaófétin inni í kirkjunni og komum okkur svo burt á traktornum! Konan stingur síðasta silfurgripnum ofan í pokann og svo búa þau sig undir að fara.
Þið megið ekki stela kirkjumununum! Skiptu þér ekki af þessu! Þakkaðu bara fyrir að sleppa lifandi.
44 Þá fær Ævar hugmynd. – Ætlið þið bara að taka þetta? Þetta er nú ekki neitt, segir hann og bendir á pokann. Þau líta öll undrandi á hann. – Hvað meinarðu? Er eitthvað fleira verðmætt hérna? spyr konan. Ævar bendir þeim á opið sem hann kom upp um. Jahá! Það eru sko geðveikt flottir gripir hérna niðri í kjallara!
45 – Kíkiði bara þarna niður! Alls konar gull og silfur. Það er fullt af því þarna niðri. Alveg heill fjársjóður! Karlinn og konan horfa tortryggin hvort á annað. – Strákurinn er örugglega að reyna að plata okkur eitthvað, segir karlinn að lokum. En farðu samt niður og athugaðu þetta svona til öryggis. Ég skal hafa auga með þessum grislingum á meðan. Ég verð að passa að þau hringi ekki í lögregluna! Konan prílar niður þrepin. Stundarkorn er allt hljótt. Síðan heyrist mikið öskur! Vá, vá, vááá! Ég trúi þessu ekki! Strákurinn sagði satt! Það er algjör fjársjóður hérna. Við erum rík!
Karlinn verður óskaplega forvitinn. Hann langar að fara strax niður og sjá hvað konan hefur uppgötvað. En hann þarf líka að passa að Ævar og Una sleppi ekki. – Þú ættir að drífa þig niður líka, segir Ævar. Ég er viss um að kerlingin ætlar að hirða alla dýrgripina og stinga þig af! Það er sko önnur leið upp úr jarðhýsinu. Karlinn er á báðum áttum. Að lokum hraðar hann sér að dyrum kirkjunnar og læsir. Hann stingur lyklinum í vasann. Svo kemur hann til baka og fer niður þrepin.
47 LOKAÐ OG LÆST Þegar karlinn er farinn niður flýtir Ævar sér að skella hleranum aftur. Hann setur risastóra og þykka bók ofan á. Honum finnst bókin ekki nógu þung svo hann fær Unu til að hjálpa sér við að drösla tveimur kirkjubekkjum þar ofan á.
48 – Nú verðum við að komast strax út og loka hinu opinu líka! æpir hann. En dyrnar eru læstar. Hvernig komumst við út? – Ekki málið! segir Una. Ég veit um hinn lykilinn. Hún hleypur að útidyrunum og opnar lítinn skáp. Þar liggur annar lykill á hillu! Una er ekki lengi að stinga honum í skrána og opna. Ævar hleypur út á undan. Hann veit hvar opið er sem hann datt niður um. Þau heyra blótsyrðin frá fólkinu. – Þau hafa lokað okkur hér niðri! Þetta er allt þér að kenna! æpir konan.
– Það hlýtur að vera annar útgangur hér einhvers staðar, svarar karlinn. Heyrðu, þarna kemur smá birta niður. Þau eru þá búin að finna gatið! Una og Ævar mega engan tíma missa. – Hvernig getum við lokað gatinu svo þau komist ekki upp? segir Una. – Hérna, hjálpaðu mér með þetta! Ævar bendir á legstein í grasinu. Á honum stendur: Hér hvílir Guðfríður Bjarnadóttir Unu og Ævari tekst með erfiðismunum að mjaka steininum yfir opið.
LÖGGAN – Vá! Þetta var nú meira vesenið! Hvað gerum við nú? segir Ævar og kastar sér niður í grasið. Hann er dauðþreyttur og skjálfandi eftir allan æsinginn. – Nú hringjum við í lögguna! segir Una. En hún verður sko heillengi á leiðinni. Vonandi getum við haldið þjófunum þarna niðri á meðan. Varla hefur hún sleppt orðinu þegar þau sjá bíl með blá blikkandi ljós. Hann kemur æðandi eftir þjóðveginum og stefnir beint til þeirra.
51 – Ha? Hvernig getur staðið á þessu? Koma þeir áður en við hringjum? Lögreglubíllinn stansar á hlaðinu og tveir lögreglumenn snarast út. – Ha? Hvað? Hver? Ævar og Una eru alveg ringluð. – Nú, ljóta, vonda fólkið! svarar löggan. – Hvernig vissuð þið um það? Una er alveg gáttuð. Hvar eru þau?
52 – Það hringdi einhver lítill krakki í neyðarlínuna og sagði að það væri ljótt og vont fólk í kirkjunni að meiða Unu systur. Ert þú kannski Una systir? – Já, segir Una og brosir út að eyrum. Við erum búin að loka ljóta fólkið inni. – Þau eru lokuð niðri í jörðinni, bætir Ævar við. Þau eru með fullt af dýrgripum undir þessum steini! Hann bendir á legsteininn hennar Guðfríðar Bjarnadóttur.
53 Löggurnar líta hvor á aðra. – Ég held við höfum verið göbbuð. Þetta hljómar ekki sennilega. Þeir sem liggja undir legsteinum eru allir dánir. Það er of seint fyrir lögregluna að handtaka þá! – Nei, þetta er alveg satt! En það er samt betra að ná þeim upp um hitt gatið sem er inni í kirkjunni. Una og Ævar fylgja lögregluþjónunum inn í kirkjuna.
54 SOFANDI STRÁKUR Þegar löggurnar hafa handjárnað þjófana og farið með þá burt fara Una og Ævar að leita að Ása. Hann er ekki inni í tjaldinu. En þau finna hann loks undir borði inni í stofu. Hann liggur þar steinsofandi með símann í hendinni.
55 – Hann er svona klár hann litli bróðir minn, segir Una stolt. – Já, hann kann að hringja í neyðarlínuna, segir Ævar. – En greyið. Hann verður spældur þegar hann vaknar á morgun og fattar að hann hefur misst af löggunni. Jæja, hann mun þó alla vega hitta fólkið frá Safninu sem kemur til að líta á forngripina. Þú ert nú líka algjört æði. Ég hélt að þú værir svo mikil rola. En nú veit ég að þú ert sko kúl!
56 Una smellir einum nettum kossi á Ævar og þrýstir hönd hans. – Ái, ég held ég sé handleggsbrotinn! segir Ævar og kveinkar sér. En þótt hann finni til brosir hann til Unu. Hann hugsar um leið til strákanna í skólanum. Það verður gaman að hitta þá aftur í haust og segja þeim frá þessu öllu saman. Ái!
Þau sofa í tjaldi við kirkjugarðinn. Enginn er heima á bænum. Allt í einu heyrist eitthvað. Hurðaskellur! RADDIR! Hvað er eiginlega á seyði? Skemmtileg og spennandi saga eftir Sigrúnu Eldjárn. Hljóðbók má hlaða niður af vefsíðunni www.mms.is 40367
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=