Neistar
87 Lesendur – almennar ráðleggingar Að finna upplýsingar í texta Mjög margir textar eru einfaldlega leiðbeiningartextar af ólíkum toga, allt frá uppskriftum að flóknum notkunarleið- beiningum fyrir geimflaugar. Slíkir textar eru yfirleitt hreinir og beinir – enda er hlutverk þeirra að koma í veg fyrir ranga notkun. Hér eru leiðbeiningar en ekki alveg í því formi sem við eigum að venjast. Lestu ljóðið hér hægra megin vel og leystu því næst verkefnið sem fylgir. 8. Hættur á fjallvegum Reykjavíkur Hér tengir höfundur ljóðsins efni þess við þekkt minni úr álfasögum. Hvernig birtist það í textan- um? Skoðið myndirnar í ljóðinu. Hvaða stemmn- ingu er þar að finna? Hvað ber að varast sam- kvæmt leiðbeiningum ljóðmælandans? Finnið og hlustið á lagið „Vegir liggja til allra átta“ á netinu. Hvernig tengist það efni ljóðsins? Ræðið í litlum hópum og berið svörin saman við svör annarra í bekknum. Hættur á fjallvegum Reykjavíkur N69°07'00''/ V25°07'00'' Þú skalt aldrei hætta þér út á fjallvegi Reykjavíkur án þess að vera við öllu mögulegu búin. Áður en þú sest undir stýri skaltu blása í blöðru til að sjá hvort þú sért algáð, þú skalt negla hælana undan skónum og vefja trefli um hálsinn. Fyrir alla muni skaltu vera löngu búin að setja upp varalit svo þú þurfir ekki að hugsa um slíkt og komist þannig hjá því að skoða glæsilegt útlit þitt í baksýnisspeglinum. Þú skalt vera öryggið uppmálað og forðast allt fát og fum við aksturinn því slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Þrátt fyrir allt máttu aldrei gleyma því að húsin við veginn eru fjöll og fólkið sem líður úr þeim er huldufólk. Öll samskipti munu setja mark sitt á framtíð þína og því skal vanda til þess verks í hvívetna. Í skottinu skaltu hafa teppi, neyðarmat, plástra, vasaljós, hlý föt og handbók um fjallvegi í Reykjavík ásamt mynd af kettinum. Ef fólkið sem líður úr húsunum reynir að ná sambandi við þig skaltu skrúfa niður rúðuna, syngja Vegir liggja til allra átta og jánka öllu sem það segir, þó svo þú skiljir ekki neitt. Ekki er ráðlagt að yfirgefa bílinn. Þó er undantekning á þeirri reglu, því ef áhyggjufullur maður kemur til þín og biður þig að hjálpa konu sinni í barnsnauð þá máttu ekki skorast undan. Farðu gætilega út úr bílnum, stígðu inn í fjallið og hjálpaðu konunni – hún mun færa þér ríkulegar gjafir að launum. Ef þú neitar muntu velta bílnum í næstu beygju og Chet Baker mun halda áfram að óma úr útvarpinu, úr bíl sem liggur á hvolfi í blóðugri á. Þá mun hlátur rymja úr húsveggjum. Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=