Neistar
Maðkurinn Maðkur! Aumlegi maðkur. Þarna liggurðu varnarlaus, þarna skríðurðu áfram með því að eingjast sundur og saman! Hvað þú ert vesæll og vanmáttugur! Bíddu! Bráðum traðka ég þig sundur með fætinum; traðka þig sundur af því að ég er máttugri en þú; einsog drottinn, þessi stóra almáttuga sál sem nýtur yndis af að sjá mannssálina skríða í duftinu fyrir fótum sér dálitla stund, en treður hana svo von bráðar sundur. Þannig mælti úngur og fríður bóndasonur. Við fætur hans skreið ánamaðkur sem hann samkvæmt ræðu sinni traðkaði sundur með fætinum, svo eftir varð aðeins dálítil mórauð glitrandi leðja. Pilturinn var staddur í fjallshlíð, vaxinni skógarkjarri. Það var vordagur en veðrið var alt annað en vorlegt. Það var úrhellisrigníng ísköld og stórfeld, og stormur. Grá eða svört regnský óðu til og frá á himninum, og alt rann út í vatni. Hver smálækur í fjallinu var orðinn að kolmórauðu fljóti. Regndroparnir sliguðu blöðin á björkinni og stormurinn skók stofna hennar og lim. En bóndasonur virtist ekki hirða um óveðrið. Hann var berhöfðaður, regnvatnið streymdi úr hárinu á honum, niður hálsinn og bakið, ennið og andlitið, niður í munnvikin, inn í munninn, eða niður af kjálkanum niður á brjóstið. Hann var yst fata klæddur stuttum jakka, var auðsjáanlega vaxinn upp úr honum, í stuttbuxum og gráum sokkum, og hafði hvíta léreftslinda fyrir sokkabönd, en annar hafði bilað, og á þeim fætinum var sokkurinn niðri á hæl, og niðrundan buxunum sást í hvítar nærbrækur. Pilturinn var fallega vaxinn og fríður í andliti, en andlitssvipurinn bar merki um sárar hugraunir. Hann óð áfram gegnum kjarrið og hirti ekki um þó rennvotar, kaldar og óþjálar hríslurnar berðust við andlit hans og hristu framan í hann regnvatninu sem hafði safnast fyrir á blöðunum. Öðru hvoru hugsaði pilturinn upphátt. Bóndasonur! mælti hann, að ég skyldi nú þurfa að vera bóndasonur, fæddur til þessa lúalega lífsstarfs og eiga mér aldrei uppreistar von fyrir bragðið. Eða hefði pabbi verið ríkur bóndi, það hefði verið annað. Þá hefði hann kostað mig í skóla og reynt að gera mig að manni. Nei, það liggur ekki annað fyrir mér en kotbóndastaðan, – ég kemst aldrei leingra. Og þó er hún bóndadóttir. Reyndar stórbóndadóttir, en hún er of drambsöm samt. Hvort mér hefði getað dottið það í hug, fagra kvöldið fyrir þrem vikum, þegar hún kysti mig kossinum í hvamminum hjá ánni og sagði ég væri fallegastur allra piltanna og að hún skyldi verða unnustan mín og konan mín á eftir, já, hvernig hefði mér þá getað dottið í hug að hún mundi segja það við mig, sem hún sagði uppi í hlíðinni áðan: Barn náttúrunnar Hér er upphafið á fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness, Barn náttúrunnar , en hún kom út þegar hann var aðeins 17 ára að aldri. Byrjið á að lesa þetta brot úr sögunni. 78
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=