Neistar

75 Dagurinn byrjaði eins og venjulega: Pabbi vakti mig með kossi, ég hreytti í hann ónotum og dró sængina upp fyrir haus. Eftir nokkrar mínútur vakti hann mig aftur, hífði efri helminginn á mér upp í lóðrétta stöðu og skorðaði mig af. Ég byrjaði að fálma mig í spjarirnar með lokuð augun og tókst að komast í bolinn og aðra buxnaskálmina áður en ég sofnaði aftur. Þegar pabbi vakti mig í þriðja sinn var komið hálfgert tómahljóð í þolinmæðitankinn hjá honum svo ég reif sjálfa mig upp á hnakkadrambinu með ofurmannlegu átaki. Til allrar hamingju var mamma sofandi svo ég gat notið geðvonsku minnar í friði með kakóinu, ristaða brauðinu og Rás 2. Þegar við mamma vöknum saman á morgnana er þriðja heimsstyrjöldin alltaf á næsta leiti. Það er nefnilega frá mömmu sem ég erfði morgunofnæmið. Sá sjúkdómur lýsir sér þannig að allar taugafrumur verða ofboðslega uppstökkar og það getur haft geigvænlegar afleiðingar fyrir þá sem dirfast að yrða á sjúklinginn nývaknaðan. Tveir svona sjúklingar við sama morgunverðarborð eru lífshættuleg samsetning. Fyrir sögumanni er þetta alveg hefðbundin byrjun á deginum ;-) Sniðugar andstæður í hegðun, strax í upphafi. Hefurðu heyrt talað um þolinmæðitank áður? Skilurðu líkinguna? Passar þú alltaf upp á að „njóta geðvonsku þinnar“ þegar sá gállinn er á þér? Pabbinn hífir hana upp og skorðar hana af eins og poka með grillkolum. Flettu sjúkdómnum „morgunofnæmi“ upp á doktor.is . Finnurðu upplýsingar um hann? Hefurðu séð uppstökka taugafrumu? En salla­ rólega? En svanga? Hvaða máli skiptir að sögumaður notar orðið „fálma mig í spjarirnar“ í staðinn fyrir „klæða mig í fötin“? Sérðu þetta fyrir þér? Mamman, með allar sínar uppstökku taugafrumur, bíður spennt eftir því að dóttirin fari út úr húsi … Vangaveltur um Peð á plánetunni jörð Hvaða stílbrögð notar höfundurinn? Hvernig finnst þér þessi byrjun? Hefurðu áhuga á að lesa meira? Af hverju? Af hverju ekki? Hvað finnst þér líklegt að gerist næst í sögunni? Hér eru nokkur lykilorð til að horfa sérstaklega eftir og ræða: • hliðstæður eða andstæður • myndmál • vísanir • persónugervingar • ýkjur í málfari • eitthvað sem er sérkennilegt er sett fram sem eðlilegt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=