Neistar

Hvað er tungumál? Hvað er íslenska – þetta risastóra fyrirbæri sem bókin fjallar um? Það er töfrandi titringur sem myndast í lungum, hálsi, tungu, gómi, vörum og raddböndum. Titringur sem ferðast til þín með hljóðbylgjum sem laumast inn í eyrun og upp í heila og skilst þar sem orð sem hafa merkingu. Þetta er ótrúlegt og undarlegt ferli, en samt er það einmitt svona. Hvað fleira er tungumálið? Ótal strik og tákn á blaði, sett saman með ólíkum hætti, sem mynda bókstafi, orð, setningar, málsgrein- ar, blogg eða blöð og bækur sem við lesum. Þegar við lesum endurbyggjum við heilan heim af hugmyndum, fólki og tilfinningum sem önnur manneskja hefur skapað í sínu höfði. Þetta er ótrúlegt en samt satt. Þetta er tungumálið. Hljóðbylgjur og tákn sem hafa að geyma lýsingar á heiminum, nöfn á hlutum og tilfinningum. Tungumálið er marg- slungið og heillandi verkfæri og við beitum því dag eftir dag, oft áreynslulaust og meistara- lega vel! Hefurðu pælt í því hvað tungumálið er magnað? Hefurðu pælt í því hvað þú ert klár í tungu- málinu? Íslenskan er okkar og við eigum að leika okkur með hana! Þegar þú lærir íslensku er gott að setja sér markmið um á hvaða sviðum þú vilt bæta árangurinn. Til þess þarftu að vita hvar þú stendur vel og hvar þú þarft að taka þig á – þá fyrst geturðu einbeitt þér að þeim atriðum sem þú vilt bæta. Hvernig bætirðu árangur þinn í lestri, ritun, hlustun, umræðum og framsögn? Með því að tileinka þér þær ólíku aðferðir sem nýtast best við hvert verkefni. Rétt eins og í annarri þjálf- un er stundum gott að vinna einn og stundum í hóp. Allir þurfa að æfa sig – og æfa sig reglulega, því að enginn verður tröllvaxinn af því að fara einu sinni í mánuði í ræktina í fjóra klukkutíma í senn. Snillingar þurfa líka að æfa sig – og þeir eru einmitt snillingar vegna þess að þeir vita að þeir þurfa að æfa sig … og þeir æfa sig. Góðar stundir! Höfundar Mikilvæg skilaboð til þín 4

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=