Neistar

56 1. Innkaupalisti eða ljóð? Hvernig lítur matseðill á pítsustað út? Og inn- kaupalisti? Ljóð? SMS? Eða smáauglýsing? Veltu því fyrir þér hvernig hinir og þessir textar líta út, rissaðu þá upp og láttu bekkjarfélaga þinn reyna að þekkja textann á útlitinu. Þú mátt nota strik, greinarmerki og önnur tákn – en ekki bókstafi eða tölustafi. 2. Að leiðrétta texta Þú færð texta hjá kennaranum sem þarfnast lagfæringar. Vinnið tvö til þrjú saman. Reynið að finna sem flest atriði sem stangast á við máltilfinningu ykkar og málfræðireglur og færið til betri vegar. Orðaforðinn Í íslensku eru til hátt í tíu samheiti yfir orðið karl , tæplega tuttugu orð yfir kona og hátt í fimmtíu orð yfir snjókoma . Snjókoma og snjókoma er nefnilega ekki alltaf það sama: Líttu út um gluggann, það er snjómugga og lítið mál að fara út að leika. Það sér ekki á milli húsa í þessu hríðarkófi, þú hefur ekkert með það að gera að fara út í þennan kafaldsbyl. Þegar við skrifum texta eigum við að vera ófeimin við að nota þann fjölbreytta orðaforða sem íslenskan býr yfir. Við eigum að nota orðatiltæki, myndhverfingar og margræð orð; leika okkur með tungumálið (án þess þó að ofgera því). Að sama skapi ættum við að forðast að nota orð og orðatiltæki sem við skiljum ekki sjálf því rétt eins og fjölbreyttur orðaforði og orðaleikir geta lyft texta upp á hærra plan þá getur röng meðferð eyðilagt annars góðan texta. „Dreptu mig ekki!“ Hvenær er við hæfi að nota orðið drepa? En slátra? Deyða eða aflífa? Það eru til ótal mörg orð sem lýsa þeirri athöfn að taka einhvern eða eitthvað af lífi og það fer allt eftir því hvern er verið að taka af lífi og í hvaða aðstæðum, hvaða orð við veljum til að lýsa því, ekki satt?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=