Neistar

29 Hvað einkennir ritmál? Í ritmáli er síður að finna hikorð og endur- tekningar. Setningar eru oftast fullgerðar, misritun sjaldgæfari, orðaval oft formlegra og þar með ekki eins mikið um slangur og slettur. Það er sem sagt talsverður munur á ritmáli – þar sem höfundur getur hugsað, valið og snurfusað – og talmáli þar sem sá sem talar er að móta hugsun sína og velja leiðir á sama tíma og hann talar. Hvað einkennir talmál? Hikorð – Hérna … sko … við ætluðum heim en þú veist (þúst) … það var svo gaman að þarna … að … við vorum bara lengur. Endurtekningar – Þau hlupu í burtu, í burtu og ég sá þau ekki aftur. Mismæli – Mmm, mamma hefur alltaf begg og eikon á sunnudagsmorgnum. Slangur/slettur – Þetta er ógeðslega krípí mynd en bilað sánd og tækni- brellurnar voru geðveikt kúl. Áhersluorð – Þau voru skíthrædd, öskruðu ógeðslega hátt. Upphrópanir – Almáttugur, hvað gerðist? Á, þetta var vont. Villur – Bóndarnir þurftu kannski að slátra kýrunum ef þeir áttu ekki nóg af heyi. Hálfkláraðar setningar – Þeir fóru og … sérðu hvernig þetta, þú veist … Óformleg orð – Pabbi og mamma (ekki faðir og móðir), bíll (ekki bifreið), fríspark (ekki aukaspyrna). 2. „Heyrðu, hérna, sko, þú veist“ Hvaða hikorð, upphrópanir, slangur/slettur og áhersluorð notar þú mest? Hugsaðu málið, hvaða orð notar þú mest? Fáðu bekkjarfélaga til að hlusta eftir því og segja þér niðurstöðurnar. Er eitthvað sem kemur þér á óvart? Athugaðu hvort þú tekur eftir því hvernig þú notar þessi orð þegar þú veist af þeim. Gerið rannsókn á því hvaða hikorð, upphrópanir, slangur, slettur og áhersluorð kennararnir ykkar nota helst. Áður en þið kynnið þeim niðurstöðurnar skuluð þið spyrja hvort þeir viti sjálfir hvaða orð af þessu tagi þeir nota mest. Koma niðurstöðurnar þeim á óvart? Reynið að fylgjast með því hvort talmál þeirra breytist eftir að þeir heyra niðurstöðurnar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=