Neistar

174 Að lokum, með kveðjum Hvernig lærðir þú að tala? Þurftir þú að setjast á skólabekk og fara í gegnum þykkar bækur og stranga þjálfun til að læra það? Nei, þú lærðir það með því að skynja, hlusta og prófa; með því að taka inn tungumálið í umhverfi þínu. Við tökum ekki meðvitaða ákvörðun um að læra grunn tungumálsins – það er meðfæddur hæfileiki þar sem við nýtum öll okkar skynfæri. Við hvetjum þig til að lesa í allt umhverfi þitt, að sjá smáatriðin sem er að finna alls staðar, að æfa þig í að nota íslensku til að tjá þig og skapa, að leika þér með tungumálið eins og þú eigir það og á sama tíma bæta færni þína og tækni í t.d. stafsetningu og málfræði – því þetta hangir allt á sömu spýtunni. Sá eða sú sem hefur tekið ákvörðun um að skapa verður sjálfkrafa betri hlustandi og greinandi. Markmiðið er að þú skiljir það sem þú lest eða heyrir, að þú getir notað orð með ólíkum blæbrigðum sem hæfa hverju tilefni, að þú hafir sjálfsöryggi til að láta í þér heyra, að þú þorir að láta rödd þína hljóma í ræðu og riti. Íslenskan er miklu meira en einfalt verkfæri. Íslenskan ert þú og þú ert íslenskan. Gangi þér vel og góða skemmtun!

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=