Neistar

160 Hluti fyrir heild Í bókmenntaumræðu er hugtakið „hluti fyrir heild“ mikið notað þegar fjallað er um ljóð en það kemur líka oft fyrir í daglegu tali. Þegar fólk gengur í hjónaband hefur annar aðilinn beðið um hönd hins. Fólkið er auðvitað ekki að biðja um ‚höndina‘ heldur biðja hinn aðilann um að giftast sér. Þegar ljóðskáldið spyr í frægu ljóði „hver veit nema ljósir lokkar, lítill kjóll og stuttir sokkar, hittist fyrir hinum megin“ er skáldið líka að tala um konu, án þess að nefna konuna eða segjast vera að tala um konu. Finndu dæmi um hluti fyrir heild í einhverju sem þú hefur heyrt eða lesið. Myndmál – Er hægt að verða sjóveikur af ljóðum og myndmáli? Þó að myndmál sé ekki að finna í öllum ljóðum er óhætt að segja að einhvers konar myndmál einkenni langflest ljóð. Með því að nota myndmál gefst manni kostur á að segja eitt fyrir annað og gefa stundum það þriðja í skyn. Helstu tegundir myndmáls eru bein mynd, viðlíking, myndhverfing og persónugerving. Bréfberinn eftir Antonio Skármeta frá Síle fjallar um samskipti og kynni sautján ára bréfbera, Mario Jiménez, við hið heimsfræga ljóðskáld Pablo Neruda. Í kaflanum hefur Mario, sem er einfaldur og bláeygður sjómannssonur, spurt Pablo um myndhverfingar. Og Pablo svarar, fremur pirraður: „[…] Ef þú vilt verða skáld skaltu byrja á því að hugsa á meðan þú gengur. Eða ertu kannski eins og John Wayne sem ekki gat gengið og tuggið tyggigúmmí á sama tíma? Nú hjólar þú meðfram ströndinni og inn í þorp og á meðan þú fylgist með sjávarganginum skaltu búa til myndhverfingar.“ „Gefið mér dæmi.“ „Hlustaðu á þetta ljóð: Hér í Isla Negra. Sjórinn, og hvílíkur sjór. Gengur inn í sjálfan sig sí og æ. Hann segir já, segir nei, segir nei. Segir já, bláleitur, freyðandi, stökkvandi. Segir nei, segir nei. Getur ei numið staðar. Ég er sjórinn, kallar hann sí og æ og lemur klöppina án þess að sannfæra hana. Þá beitir hann sjö grænum tungum, sjö grænum tígrum, sjö grænum hundum, sjö grænum höfum. Leikur um hana, kyssir hana og vætir, ber sér á brjóst og endurtekur nafn sitt.“ Sáttur gerði hann hlé á máli sínu. „Hvernig fannst þér?“ „Skrýtið.“ „Skrýtið? Þú ert aldeilis harður gagnrýnandi!“

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=