Neistar

150 Málsnið og málnotkun Í daglegum samskiptum við vini og fjölskyldu viljum við vera frjáls og afslöppuð, við viljum að fólk heyri hvað við segjum en ekki endilega hvernig við segjum það. Ef okkur verður á að mismæla okkur, ruglast í fallbeygingu og nota slangur og slettur viljum við samt geta treyst því að fólk heyri og skilji það sem við meinum en hengi sig ekki í málfarið. Það koma hins vegar oft upp aðstæður þar sem við verðum að vanda mál okkar, bæði í talmáli og ritmáli. Og þá þurfum við að gera greinarmun á réttu og röngu máli og á því sem kallast vandað og óvandað málsnið. Öll kunnum við og beitum ólíkum málsniðum, allt eftir aðstæðum. Okkur kann að finnast sum málsnið betri en önnur eða einfaldlega flottari því málsnið geta verið smekksatriði. Að nota vandað mál felst fyrst og fremst í því að fylgja málfræðireglum og málvenjum og að nota orð við hæfi. Í hinu kæruleysislega málsniði (sem við notum stundum í talmáli og rafmáli) getum við verið frjáls og afslöppuð en að sama skapi þurfum við að skilja að í samfélaginu koma mjög oft upp aðstæður þar sem þess er krafist að við notum vandað málsnið. Við hvaða aðstæður þarftu að vanda mál þitt? Rétt mál: • Ég fór og lék við vin minn. • Ég er að fara til Jóns Þórs. • Mig langar í pylsu! Mig langar í pulsu! Pylsa og pulsa er hvort tveggja rétt, það er aðeins mis- munandi málvenja sem ræður því hvort orðið er notað. Rangt mál: • Ég fór og leikti við vin minn. Sterka sögnin að leika fær hér endingu veikrar sagnar. • Ég er að fara til Jón Þórs. Hér hefur gleymst að fallbeygja Jón. En hvað telst þá rétt mál og hvað ekki? • Að fylgja málfræðireglum og málvenjum er rétt mál (og mundu að málfræðireglur eru ekkert annað en lýsingar á málvenjum).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=