Neistar
Útburðurinn Það kviknar ljós, eitt ljós fyrir miðju sviðinu. Í því stendur undurfögur ung kona, vafin slitnum og skítugum reifum. Ég er orðin þreytt á að láta mig dreyma. Það er slítandi að fylgjast með lífinu. Ég hefði getað orðið óskabarn. Ég hefði getað orðið hreppstjórafrú, prestfrú, jafnvel sýslumannsfrú. Sennilegast þó vinnukona. Á sumrin þegar smaladrengurinn situr hér í selinu líður mér eins og ég sé hluti af heimilisfólkinu á bænum. Ég sé þau ljóslifandi fyrir mér; mömmu að mjólka, þvo og raka. Pabba að taka á móti gestum í stofunni, hella brennivíni út í kaffið, þeysa um sveitir á Grána. Vinnumennina slá, húsfreyjuna elta uppi vinnukonuna sem stelur úr búrinu. Trygg sem fylgir pabba hvert spor. Smaladrengurinn er fallegur. Hann er rauðhærður og með stór græn augu, eins og ég. Hann líkist pabba mikið. Hann er oft þreyttur þegar hann kemur á vorin, fölur, magur og skítugur. Ég vildi að ég gæti verið föl, mögur og lúsug á vorin. Ég reyndi að segja þeim að ég léti lítið fyrir mér fara, að ég gæti legið í reifum með dúsu daglangt, sumarlangt. Sofið til fóta. Létt mömmu verkin. Passað litlu systkini mín, kennt þeim að vera hljóð og góð og að trufla ekki pabba. Ég sagði þeim ekki að mig langaði að liggja í kjöltu mömmu, að mig langaði að brosa til hennar, segja henni sögur og syngja með henni, fá hana til að brosa. Ég hefði heldur aldrei sagt þeim að mig dreymdi um að kúra í hálsakoti pabba, finna tóbaksilminn og kitla hann. Verða litla fallega stúlkan hans. Færa honum heitt kaffi á morgnana og fá að laun- um bros og finna hlýja hönd hans strjúka mér um vanga; takk Rósa mín elskuleg. Ég varð aldrei Rósa. Mamma hvíslaði nafninu að mér þegar húsfreyjan reif mig úr fangi hennar og setti mig í hendur Hreggviðs gamla. Hann vissi hvað hann átti að gera. Hann hefur síðan vitjað mín ár hvert. Situr við steininn, fellir tár og fer með bæn. 131
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=