Neistar

Ég hef bjargað svo mörgu fólki sem annars hefði dáið og haldið þannig jafnvægi í heiminum. Einu sinni hélt ég að ég væri orðinn of seinn til að bjarga hlutunum. Ég hafði eytt öllum deginum inni að æfa mig á einhjólinu sem ég var nýbúinn að kaupa. Þegar ég fór loksins út sá ég að eldfjall hafði gosið og bærinn var fullur af fljótandi hrauni. Fólk sat fast á húsþökunum sínum og beið eftir hjálp. Sumir höfðu beðið svo lengi að þeir voru farnir að hjálpa sjálfum sér. Ég mæli ekki með því. Það er hættulegt ef maður veit ekki hvað maður er að gera. Allavega, eina leiðin til að komast á milli húsa var á símalínunum. Sem betur fer var ég orðinn mjög góður á ein- hjólinu og gat hjólað á milli og gefið fólki mat. Ég hjólaði líka með það á bakinu í verslanir, sund, kirkju og fleira. Sumir báðu mig um að taka smá rúnt því þeim leiddist þarna á þakinu. Ég vildi stundum að ég gæti farið í frí og sleppt því að bjarga öllu í nokkra daga, en ég veit að hvert sem ég færi þá myndi ég enda á því að þurfa að bjarga málunum. Ég yrði ekki fyrr lentur en ég væri farinn að semja við bankaræningja um afhendingu gísla eða bjarga fólki frá hákarlaárás. Það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að binda endi á líf mitt. Þreyttur á þessum sífelldu björgunum fór ég upp á þak á hæstu blokkinni sem ég fann. Ég gekk að brúninni og lét mig falla. Á leiðinni niður upplifði ég undarlega tilfinningu. Ég var rólegur. Í fyrsta skiptið í langan tíma var ég ekki fullur af vonleysi. Hæðin á blokkinni var meiri en ég gerði mér grein fyrir og þegar ég var hálfnaður niður á malbikið leið yfir mig. Ég vaknaði daginn eftir á spítala. Einhver hafði bjargað mér fyrir slysni. Jónas Reynir Gunnarsson 125

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=