Neistar
Síðasta sagan er eftir nemanda í ritlist við Háskóla Íslands. Hversdagshetja Einhverra hluta vegna er ég alltaf á réttum stað á réttum tíma. Ég veit ekki hversu oft ég hef labbað framhjá brennandi húsi og gripið barn sem einhver kastar til mín af fjórðu hæð. Einu sinni var ég að lesa blaðið og barnið lenti á miðri opnunni. Ég er hættur að kippa mér upp við þetta. Ef ég er úti að skokka þegar þetta gerist tek ég ekki einu sinni heyrnartólin úr eyrunum. Ég kinka bara kolli og brosi þegar foreldrarnir og slökkvi- liðsmennirnir þakka mér fyrir. Ég get ekki farið í flugvél án þess að eitthvað komi upp á. Síðast þegar ég var í flugvél fengu báðir flugmennirnir hjartaáfall. Ég var beðinn um að stýra vélinni. Þeir í flugstöðinni leiðbeindu mér í gegnum síma svo ég vissi hvað ég væri að gera. Erfiðast var að taka hana á loft. Einu sinni þegar ég var að bjarga flugvél óskaði flugfreyja eftir lækni í kallkerfið. Ég þurfti bæði að fljúga flugvélinni og sinna sjúklingunum. Það var ekki auðvelt, en á endanum fann ég lausn á því. Ég flaug vélinni bara lengst upp og hljóp til farþeganna og hjálpaði eins mörgum og ég gat meðan vélin var að hrapa niður aftur. Þannig keypti ég mér tíma. Svo hljóp ég í stjórnklefann og flaug henni aftur upp. Ég gerði þetta alla leiðina og millilenti meira að segja til að taka eldsneyti áður en ég komst á áfangastaðinn. Ég hugsa að ég hafi komið í veg fyrir svona sjö heimsstyrjaldir. Einu sinni vann ég sem sendill og var að sendast með skotheld vesti á hjólinu mínu. Ég hjólaði framhjá einhverjum þjóðarleiðtoga sem var að stíga út úr brynvörðum bíl og kom í veg fyrir að skot frá leyniskyttu hæfði hann. Einu sinni var ég í fallhlífarstökki nálægt landamærum tveggja ríkja sem voru í deilum. Ég greip flugskeyti með fallhlífinni minni, sem skaut mér marga kílómetra af leið, en sprakk ekki. Ég skaust inn um þakglugga í koddaverksmiðju, tímanlega til að bjarga forstjóranum sem var að kafna á kjúklingabeini. Hann var svo þakklátur að hann gaf mér lífstíðarbirgðir af koddum. Það er ekki jafn hentugt og það hljómar, ég fer ekki það hratt í gegnum kodda. Áður en ég bjargaði þessum forstjóra var ég búinn að nota sama koddann í sjö ár. Ég sef heldur ekki mikið. Stundum fæ ég samviskubit þegar fólk talar um að offjölgun sé vandamál. Ef ég er alveg hreinskilinn held ég að hún sé mér að kenna. 124
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=