Neistar

Sögur eftir ungt fólk Við byrjum á að skoða tvær smásögur eftir unglinga á þínu reki. Báðar urðu þær til í grunnskóla þar sem kennarar hvöttu nemendur til að skrifa og senda inn sögur í ritunarkeppni. Kannski hefðu þessar sögur aldrei orðið til ef ekki hefði verið fyrir svona umgjörð? Manstu, sá sem skapar þarf að hlusta á sjálfan sig, trúa því að hann hafi eitthvað fram að færa og vinna svo úr því til fulls. Handan hæðanna, við enda regnbogans Myrkir skólagangar, hver á eftir öðrum. Gömul konan gekk hægum skrefum áfram. Það eina sem hindraði för hennar voru árin sem hún hafði lifað. Á göngu sinni rifjaði hún upp allar þær góðu stundir sem hún hafði lifað og allar þær slæmu. Skólinn var hennar heimavöllur, hér hafði hún lært, útskrifast og kennt allt sitt líf. Brosandi gekk hún að elsta hluta byggingarinnar þar sem hún sjálf hafði stundað nám þegar hún var ung stúlka. Hægt og rólega opnaði hún dyrnar að íslenskustofunni. Þungum en hljóðlátum skrefum gekk hún inn. Stofan lyktaði af elli og menningu, hún hafði sál. Þarna við gluggann hafði hún hitt eiginmann sinn í fyrsta skipti. Þau voru vön að leika sér á hverjum degi eftir skóla, mikið voru þau góðir vinir. Þau uxu úr grasi, eignuðust börn og urðu gömul saman. Á dimmum vetrarkvöldum voru þau vön að sitja við arineldinn inni í stofu og tala um gamla tíma, daginn og veginn. Jafnvel nú, rúmum ára- tug eftir andlát hans, finnur hún enn fyrir nærveru hans við eldinn. Konan strauk burtu tárið sem læddist niður kinn hennar. Áfram hélt hún hljóðlátri göngu sinni. Konan tók í rykfallinn hurðarhúninn að hátíðarsalnum og opnaði þungar dyrnar. Hún staulaðist að gamla flyglinum og spilaði með innilegri tilfinningu Tunglskinssónötu Beethovens, uppáhalds verk þeirra hjóna. Þarna á gólfinu höfðu þau stigið sinn fyrsta dans á sveitaballi forðum. Gamla konan sá fyrir sér fólkið, gleðina og dansinn. Hún steig fram á gólfið og dansaði létt á fæti við ímyndað undirspil Hljóma. Það var ekki fyrr en birta tók af degi að hún rankaði við sér. Þá tók hún stafinn sér í hönd og gekk rólega að bekknum hinum megin í herberginu. Gamla konan settist niður, vitandi að nú væri síðasta sandkornið í tímaglasi lífsins að falla til botns. Þarna í morgunsólinni, þennan fagra vormorgun, kvaddi hún lífið og hélt á betri stað, stað sem var langt í burtu, handan hæðanna, við enda regnbogans. Andrea Dagbjört Pálsdóttir (15 ára) Titillinn er mjög ljóðrænn, opinn og áhrifamikill. Ósjálfrátt búumst við þess vegna við ljóðrænum texta í kjölfarið. Fyrsta línan inniheldur gildishlaðin orð sem setja tóninn. Finndu þau. Hér er flakkað hratt á milli sögusviða og á milli tíða. 118

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=