Neistar
117 Hvar er allan sannleikann að finna? Engin saga segir alla söguna um þá atburði sem hún fjallar um. Í öllum sögum er alltaf eitthvað sem liggur til hliðar við frásögnina, eitthvað sem kemur ekki fram nema með óbeinum hætti. Að þessu leytinu til má líkja risastór- um skáldsögum við ísjaka sem einhver hefur lyft með Grettistaki upp úr sjónum og að sama skapi má líkja smásögu við þennan fræga topp á ísjakanum. Í smásögu fáum við oft takmarkaðar upplýsingar – þær leynast og dyljast og það er okkar að „leysa gátuna“ eða skynja hvað liggur á bak við knappa frásögnina. Það sem einkennir smásögu er að hún er nægilega stutt til að hægt sé að lesa hana í einni lotu. Hún segir yfirleitt ekki frá mörgum aðskildum atburðum en getur vísað óbeinum orðum í ýmsa atburði utan við söguna. Sögupersónur í smásögu upplifa oft ólíka atburði sem valda breytingu í lífi þeirra. Smásaga er saga sem segir ekki alla söguna – þú þarft að lesa á milli línanna. Þegar þú lest smásögu þarftu því að taka vel eftir, gæta þess að missa ekki af neinu, en jafnvel það gildir einnig um annars konar texta, líka skáldsögur. Stundum er talað um að eftir því sem texti er knappari skipti hvert orð meira máli í samhenginu. Í 1000 blaðsíðna skáldsögu getur hvert orð haft fremur lítið vægi en sagan sjálf og framvinda er aðalatriðið. En í knappri smásögu getur eitt orð, til eða frá, breytt allri merkingu textans og skynjun lesandans. Að því leytinu til stendur smásagan nær ljóðinu en skáldsögunni. En nóg um þessar pælingar. Best er að demba sér í að prófa einfaldlega að lesa smásögur.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=