Neistar
9 Hér er dæmi: Þú ert 16 ára og um vorið óskar skólastjórinn eftir því að þú haldir ræðu fyrir útskriftarárganginn þinn í grunnskóla. Um svipað leyti er fjölskyldan að velta fyrir sér framtíðinni – foreldrar þínir ætla í framhaldsnám erlendis og þú ræðir við þá og systkini þín kosti og galla ólíkra landa. Þú sækir um vinnu í ísbúð og á frístundaheimili og ferð í tvö atvinnuviðtöl vegna þess. Um vorið hittirðu fallega manneskju sem hreyfir við hjarta þínu og allt í einu langar þig svo mikið til að tjá þig, tala um það hvernig þér líður og segja falleg orð um þennan fallega einstakling. Þetta snýst um listina að láta í sér heyra, stundum þegar við vitum það fyrirfram og getum undirbúið okkur en líka þegar fyrirvarinn er stuttur. Við leitum að sjálfstrausti til að flytja mál okkar eða texta með sannfæringu, ekki bara fyrirlestra heldur upplestur á fréttum, ljóðum eða skálduðum texta. Við pælum í því hvernig fólk tjáir sig á ólíkan hátt og leyfum okkur jafnvel að taka upp okkar eigin umræður til að heyra hvernig við tjáum okkur sjálf. Ræðum um umræður og æfum ræður og ræðum æfur … Því að lífið er, satt best að segja, stútfullt af aðstæðum þar sem þér býðst að tjá þig og hafa áhrif. Ekki þurfa samt allir alltaf að gjamma öllu sem þeim dettur í hug – hluti af þroskaðri tjáningu er einmitt að vita hvenær á að segja eitthvað og hvenær á að þegja og hlusta á aðra. Svo eru sumir að eðlisfari feimnir og reyna jafnvel að haga lífi sínu þannig að þeir þurfi lítið að láta á sér bera. Auðvitað er það líka í lagi. En framsögn og tjáning snýst um að geta tjáð sig þegar maður vill eða verður . Þetta snýst um að láta rödd sína heyrast, að þroska eigin skoðanir með því að kunna líka að hlusta á aðra og vega og meta þeirra skoðanir. Að kunna að vera í samtali við fólk, við samfélagið og umhverfi sitt. Svolítið stórt mál, er það ekki? Umræður og vangaveltur 1. Hefurðu haldið ræðu í afmæli eða við annað svipað tilefni? Hvernig reynsla var það? 2. Hefurðu haldið ræðu við annað tækifæri? Var það öðruvísi reynsla? 3. Við hvaða tækifæri gætirðu helst hugsað þér að halda ræðu? Af hverju? 4. Við hvaða tækifæri gætirðu alls ekki hugsað þér að halda ræðu. Af hverju?
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=