Neistar

99 Heimildir og heimildavinna Þegar þú vinnur að heimildaritgerð eða skrifar annars konar texta sem byggist á heimildum þarftu að búa yfir ákveðinni þekkingu um efnið sem fjallað er um. Í sumum tilfellum veistu sjálfsagt heilmikið um efnið, t.d. ef þú skrifar um þitt helsta áhugamál, um uppáhaldsdýrið þitt eða um land eða stað sem þú hefur nýlega heimsótt. Í öðrum tilfellum vantar þig þekkinguna og þá þarftu að kynna þér málið vel og afla heimilda. Hvað er heimild? Heimild er þar sem þú finnur vitneskju – upplýsingar. Heimild getur t.d. verið alfræðirit, fræðibækur, dagblöð, tímarit, vefsíður eða fólk með ákveðna sérfræðiþekkingu. Við val á heimildum þarf að beita skynsemi, greinandi hugsun og gagnrýni. Mjög mikilvægt er að greina á milli áreiðanlegra og óáreiðanlegra heimilda, þ.e. hverjar eru traustar og hverjar ekki. Í uppflettiritinu Heimir – handbók um heimildaritun eru gagnlegar upplýsingar sem við hvetjum þig eindregið til að kynna þér. Svona ferðu að: 1. Þú leitar heimilda og skoðar fleiri en eina heimild. 2. Þú skoðar heimildirnar með gagnrýni að leiðarljósi og metur áreiðanleika þeirra. 3. Þú vísar í heimildir og skráir jafnóðum hvaðan upplýsingarnar koma og hvenær þær eru sóttar ef um er að ræða netheimild.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=