Náttúrulega 3

94 Náttúrulega 3 │ 4. kafli Lofthjúpur jarðar er þéttastur innan 10 km frá jörðu, eftir það þynnist hann. Andrúmsloftið sem við mannfólkið notum til að lifa er innan þessa 10 km lofthjúps. Lofthjúpurinn samanstendur að mestu leyti af köfnunarefni (N2) og súrefni (O2). Þær lofttegundir flokkast ekki með gróðurhúsalofttegundum. Hér verður lögð áhersla á að skoða þær lofttegundir sem flokkast sem gróðurhúsalofttegundir. Gróðurhúsalofttegundirnar eru nokkrar en þær helstu sem verða fyrir áhrifum frá mannfólki eru koltvísýringur (CO2), metan (CH4) og glaðloft (N2O). Gróðurhúsalofttegundirnar sjá til þess að hiti á jörðinni sé mátulegur til að líf þrífist. Orka frá sólinni kemst nefnilega frekar auðveldlega inn um lofthjúpinn en gróðurhúsalofttegundir, sem mynda eins konar lag eða hjúp innan lofthjúpsins, hindra geisla sólar í að fara aftur út í geim. Flestir hafa upplifað að fara inn í bíl sem hefur staðið kyrr í sterku sólarljósi og fundið að hitinn er mun meiri inni í bílnum en utan hans. Ástæðan er sú að rúður bílsins virka eins og gróðurhúsalofttegundir. Rúðan hleypir hitanum inn en ekki eins vel út aftur. Það sama á við í gróðurhúsi og þaðan kemur nafnið, gróðurhúsaáhrifin. Oft eru notuð mörg orð yfir sama fyrirbærið. Til dæmis koldíoxíð og koltvísýringur og CO2. Vissir þú? Þegar mátulega mikið er af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu verður jörðin mátulega heit til að líf geti þrifist.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=