Náttúrulega 3

87 Náttúrulega 3 │ 3. kafli greinum til viðbótar fyrir stærri raftæki sem þurfa mikla orku eins og þvottavél, þurrkara og eldavél. Á hverri grein er öryggi sem passar að ekki fari meiri straumur um rafleiðara hússins en öruggt er til að koma í veg fyrir íkveikju. Ef meiri straumur fer um öryggið en á að fara rífur öryggið rásina og þá tölum við gjarna um að slegið hafi út. Í rafmagnstöflunni er líka lekastraumsrofi sem hefur það hlutverk að fylgjast með straumnum sem fer inn og út úr húsinu og passar að mismunurinn sé ekki of mikill. Sé mismunur til staðar þýðir það að straumurinn er að leka út úr rásinni. Þetta getur verið hættulegt fyrir okkur því ef straumurinn fer um líkama okkar getur það haft alvarlegar afleiðingar og jafnvel valdið dauða. Ef lekastraumsrofinn verður var við að straumur leki út úr rafleiðara rífur hann rásina. Þetta er gert til þess að reyna að vernda okkur gegn því að fá hættulegan straum. Mikilvægt er að fara alltaf varlega með rafmagn og passa sig á að snerta ekki óeinangraða leiðara. Rafmagn getur einnig farið af heilu hverfi, sveitarfélagi eða landsvæði vegna bilana eða viðgerða. Þá er lítið hægt að gera fyrir flest okkar annað en að bíða það af sér en gott er að loka öllum gluggum til að passa að ekki verði of kalt þar sem margir treysta á rafmagn til að kynda heimilin sín. Á heimilum ætti að vera að minnsta kosti eitt vasaljós og nóg af rafhlöðum ef það skyldi verða rafmagnslaust. Einnig er gott að hafa hlaðinn hleðslubanka svo hægt sé að hlaða síma ef upp kemur neyð og nota þarf símann. Ef rafmagnið fer af stóru svæði getur símasamband rofnað alveg á svæðinu. Þegar það gerist getur komið sér vel að eiga útvarp sem gengur fyrir rafhlöðum til að geta hlustað eftir tilkynningum frá yfirvöldum og viðbragðsaðilum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=