Náttúrulega 3

84 Náttúrulega 3 │ 3. kafli Rafstraumur er leið rafmagns eftir rafstraumrás. Straumrásir geta verið í öllum stærðum, allt frá því að vera leið frá innstungu að ljósaperu í lampa eða háspennulínur sem liggja milli landshluta. Þegar verið er að tengja straumrás þarf að tryggja það að hún myndi hringrás því annars virkar hún ekki. Á klóm sem settar eru í innstungur eru tveir angar sem tengjast inn í rafrásina sem er í íbúðinni. Þannig viðhelst hringrásin og hægt er að nota lampann. Sum efni eru viljugri til að hleypa rafmagni í gegnum sig en önnur. Þau sem vilja ekki hleypa rafmagni í gegnum sig kallast einangrarar og eru notaðir meðal annars sem vörn utan á víra í snúrum. Efni sem eru einangrarar eru meðal annars plast, postulín og timbur. Efni sem vilja hleypa rafmagni í gegnum sig kallast leiðarar. Það eru til dæmis málmar. Málmar leiða rafmagn misvel en í flestum rafmagnsleiðurum í kringum okkur er notaður kopar eða koparblanda. Rafmagn í því umhverfi sem maðurinn hefur búið til er ekki stöðurafmagn heldur er það búið sérstaklega til. Rafmagnið er flutt inn í húsin með rafleiðslum og fer þaðan í raftækin. Til þess að rafstraumur berist þarf hann að komast í hringrás. Ljós lýsir á meðan rafrásin er tengd eða lokuð og þegar ýtt er á ljósrofann slokknar ljósið því búið er að rjúfa hringrásina. Hægt er að nota rafhlöður eða batterí til að mynda rafrás, t.d. í fjarstýringum og vasaljósum. Annar endinn er merktur með mínus (-) og hinn með (+). Mikilvægt er að rafhlaðan snúi rétt því annars er rafrásin ekki rétt tengd. Þegar rafhlöður eru tengdar saman tvær eða fleiri tengjast ólíkir endar saman.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=