Náttúrulega 3

80 Náttúrulega 3 │ 3. kafli Lífefnaeldsneyti Hægt er að framleiða lífefnaeldsneyti úr trjám, plöntum eða saur dýra. Nota má það sem annars væri fargað úr landbúnaði og skógrækt í að búa til nothæfa orku. Leifarnar eru settar í kar þar sem bakteríur éta þær og búa til gas. Í framleiðslunni felst því nokkurs konar endurvinnsla. Þegar þetta er brennt í vélunum myndast þó koltvíoxíð sem hefur ekki góð áhrif á andrúmsloftið. Þegar talað er um að skipta þurfi um orkugjafa og nota umhverfisvæna og endurnýjanlega orkugjafa í stað óendurnýjanlegra er gjarnan talað um að orkuskipti eigi sér stað. Allir þurfa að hjálpast að til að mengun og orkusóun minnki. Þetta krefst þess að yfirvöld búi til hvata fyrir íbúa og fyrirtæki þjóðarinnar til að velja að nýta umhverfisvænni orkugjafa og sóa ekki orku að óþörfu. Yfirvöld þurfa að skapa aðstæður þar sem ódýrara er og þægilegra fyrir fólkið og fyrirtækin að menga minna og sóa minni orku. Slíkar breytingar geta verið kostnaðarsamar en það getur sparað til langs tíma litið. Fyrirtæki þurfa að bjóða upp á umhverfisvænni vörur og huga að því að gera framleiðslu og flutning á vörum umhverfisvænni og minnka sóun í sínu ferli. Við, fólkið í landinu, erum stundum líka kölluð neytendur. Okkar hlutverk er að velja umhverfisvænni kosti þegar þess er kostur og kaupa ekki meira en við þurfum til að minnka sóun t.d. þegar við kaupum mat. Við getum líka minnkað sóun með endurnýtingu, t.d. með því að kaupa notuð raftæki og fatnað eða með því að gera við og laga í stað þess að kaupa nýtt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=