Náttúrulega 3

72 Náttúrulega 3 │ 3. kafli Vindorkuvirkjanir Vindorka hefur lengi verið notuð sem orkugjafi. Áður en við höfðum flugvélar og vélknúin skip voru seglskip eini möguleikinn til þess að ferðast út fyrir landsteinana. Þegar landnemar Íslands komu til landsins var notast við seglbáta. Vindorka hefur einnig verið notuð til að mala korn, dæla vatni með vindmyllum en nú til dags er vindorka aðallega nýtt til raforkuframleiðslu. Til þess eru notaðar vindmyllur en þær hafa sína kosti og galla. Ókostirnir eru að ekki er hægt að nota þær í of miklum vindi og þær eru hávaðasamar svo ekki hentar að hafa þær í byggð. Kostirnir eru hins vegar fjöldamargir, m.a. að vindur er óþrjótandi orkulind og því hægt að nota alla orku vindsins án þess að valda varanlegu tjóni á auðlindinni. Víða má sjá vindmyllur t.d. í Danmörku og Þýskalandi. Vindhraði skiptir miklu máli fyrir nútímavindmyllur. Ef vindhraði tvöfaldast, t.d. úr 5 m/s í 10 m/s áttfaldast raforkan sem verður til. Þess vegna skiptir staðsetning vindmylla miklu máli.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=