69 Náttúrulega 3 │ 3. kafli HVAÐAN KEMUR ORKAN? Ræðum saman Hvað eru orkugjafar? Hvaðan kemur orkan sem er notuð á Íslandi? Hvaða orkugjafa þekkir þú? Í dag er orkugjöfum oft skipt í endurnýjanlega og óendurnýjanlega orkugjafa. Stundum er talað um endurnýjanlega orkugjafa sem umhverfisvænni orkugjafa. Í þeim tilfellum eru náttúruöfl nýtt, s.s. sólin, vindur, vatn og jarðvarmi. Þetta eru auðlindir sem endurnýjast í sífellu, sumar hægt en aðrar hraðar. Orðið endurnýjanlegt þýðir að það kemur alltaf orka í staðinn fyrir þá sem við notum. Á Íslandi eru mörg hús hituð með jarðvarma og rafmagn er búið til með jarðvarma eða vatnsorku. Þrátt fyrir að þessar auðlindir séu endurnýjanlegar þurfum við engu síður að gæta þess að nota ekki orku að óþörfu. Ástæðan er að við getum aðeins nýtt þá orku sem við getum beislað og breytt í þau form sem nýtast okkur. Til að beisla orkuna notum við stórar virkjanir sem nýta oft annaðhvort hreyfiorku vatns eða hreyfiorku gufu sem myndast vegna jarðhita. Þessar virkjanir geta raskað náttúrunni talsvert þar sem að þær eru staðsettar og því viljum við ekki beisla meiri orku en við þurfum. Þó að þessar virkjanir geti valdið skaða á nánasta umhverfi sínu eru þær þó betri en virkjanir sem nota jarðefnaeldsneyti til raforkuframleiðslu því það veldur því að mikið magn af gróðurhúsalofttegundum sleppur út í andrúmsloftið.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=